Menningar- og listasaga frá miðöldum fram yfir miðja 19. öld
SAGA2LI05
11
saga
menningar- og listasaga, miðaldir fram yfir miðja 19. öld
Samþykkt af skóla
2
5
Í áfanganum læra nemendur um forsendur sjónlista, tónlistar og sviðslista frá miðöldum og fram yfir miðja 19. öld. Markmið áfangans er að nemandinn geri sér grein fyrir eðli þeirra þátta sem mótað hafa listsköpun mannsins í gegnum tíðina. Áfanganum er skipt upp í nokkrar lotur þar sem nemendur kynnast og vinna heildrænt með menningarsamhengið á ákveðnum stað á ákveðnum tíma. Þær listastefnur/tímabil listasögunnar sem verða helst skoðaðar hér eru; miðaldir, endurreisn, barrokk, klassík og rómantíska tímabilið.
Nemendur rannsaka hvert þema undir stjórn kennara, greina helstu þætti listgreinanna, menningar og þjóðfélagshátta á hverju tímabili. Þeir skoða alla þætti listalífsins; myndlist, handverk, hönnun, tónlist, dans og leiklist, hvern í samhengi við annan og við félagslegt og heimspekilegt umhverfi. Einnig eiga nemendur að gera grein fyrir eigin menningarheimi og rannsaka íslenskan veruleika á hverju tímabili fyrir sig og kynna í niðurstöðum sínum eins og unnt er.
Vinna í áfanganum fer ýmist fram í hópum eða eru einstaklingsverkefni. Hver hópur eða einstaklingur tekur fyrir ákveðna þætti menningarinnar, leitar heimilda, vinnur úr þeim og kynnir að lokum fyrir öðrum nemendum. Áfanginn kallar á kennsluhætti þar sem nemendur eru virkir og sjálfstæðir í þekkingarleit. Nauðsynlegt er að í upphafi séu fyrir hendi góðar upplýsingar um hvar megi finna efni og upplýsingar sem tengjast tilteknum stað, tíma og menningarsamhengi. Nemendur nýta sér fjölbreytta miðla við upplýsingaleit og við framsetningu hugmynda sinna. Mikilvægt er, þótt áhersla sé lögð á ákveðin tímabil, að litið sé á söguna sem heild og að kennari tengi saman þau tímabil sem um ræðir hverju sinni.
LSTR1LS05
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
menningarlegri og hugarfarslegri þróun og margbreytileika í mannlegu samfélagi
því hvernig listir eru nátengdar félagslegum veruleika á hverjum stað á hverjum tíma
sínum eigin menningarheimi í tengslum við þau tímabil í sögunni sem um ræðir hverju sinni
samsvörun og mismun á menningu þess staðar sem nemendur rannsaka og á íslenskum veruleika sama tímabils
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
kynna niðurstöður sínar á fjölbreyttan hátt
skilja hvernig hin ólíku listform tengjast hefðum, notagildi, listrænu yfirbragði, samfélagsímynd, þjóðareinkennum o.fl.
skipuleggja vinnu og þekki til hugmyndavinnuaðferða í frjálsu hópastarfi
vinna sjálfstætt og tileinka sér gagnrýna hugsun
kynna verkefni sýn á fjölbreyttan og áhugaverðan hátt
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
gera sér grein fyrir samhengi á milli ólíks birtingarmáta tjáningar á ólíkum stöðum og ólíkum tímum
greina sameiginlega þræði í ólíkum listgreinum á hverjum tíma
skilja hvernig atriði eins og staðhættir, náttúruauðlindir, tæknistaða og stjórnarfar geta mótað möguleika manna til menningarlegrar tjáningar
nýta sér vinnubrögð verkefnisvinnu („prójekt“-vinnu)
taka á virkan hátt þátt í umræðu um verkefni sín annarra nemenda
Námsmat er útfært í kennsluáætlun í samræmi við skólanámskrá.