Í áfanganum læra nemendur um forsendur samtímalista.
Þeir kynnast helstu hræringum í tónlist, sviðslistum, myndlist, hönnun og byggingarlist allt frá lokum 20. aldar til dagsins í dag. Meginmarkmið áfangans er að nemendur verði vel með á nótunum um stöðu sjónlista, tónlistar og sviðslista í samtíma sínum, að þeir skilji þær hugmyndir og stílbrigði sem nú tíðkast. Þeir rannsaka listgreinar samtímans í samhengi við meginþætti samfélagsgerðarinnar: stjórnarfar, fjölmiðlun, lífsgæði, hagsmuni einstakra hópa, tísku og hefðir, hugmyndafræði og heimsmynd. Innlögn í áfanganum verður í fyrirlestrarformi en auk þess er mikil áhersla lögð á sjálfstæðar rannsóknir nemenda á þeim hugmyndum sem uppi eru í listsköpun og umræður um stöðu myndlistarinnar, hönnunar, tónlistar og sviðslistanna í sögulegu ljósi. Nemendur nýta sér fjölbreytta miðla við upplýsingaleit og læra að nýta sér tölvutækni við framsetningu hugmynda sinna. Í áfanganum kynna nemendur sér einnig menningarumhverfi samtíma síns og rannsaka það út frá merkingarfræði og menningarsögu. Námið byggist á virkri þátttöku og skiptist í nokkur stór verkefni og hluti námsins felst í að upplifa og taka þátt í listviðburðum og vettvangsferðum þeim tengdum. Um er að ræða leiðsagnarmat og nemendur skila af sér „portfolio“ sem inniheldur rannsóknarvinnuna í áfanganum og þeirra eigin upplifun. Efnið verður tekið fyrir á fjölbreyttan hátt og farið verður í þætti sem snúa að fagurfræði og heimspeki, túlkun og tjáningu.
SAGA2LI05 og SAGA2ML05
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
skipulagningu og framkvæmd fjölbreyttra viðburða sviði lista og hönnunar
mikilvægi hlutverki lista og menningar í eigin samfélagi
samhengi og tengsl á milli ólíkra listgreina og ólíkra listamanna
ólíkum lífstíl og hefðum fólks útfrá ólíkum lífsviðhorfum
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
greina, bera saman og gagnrýna; hönnun, listviðburði, eða fjölmiðla í samtímanum
njóta listaverka og ólíkra listviðburða
fylgjast vel með því sem er að gerast í listum og menningu, tísku og hönnun á líðandi stundu bæði hérlendis og erlendis
vera opinn fyrir umræðum og gagnrýni á listviðburðum og verkum ólíkra listamanna
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
fjalla um stöðu listar og hönnunar með vísun í menningar- og sögulega þætti
skilgreina eigin lista- og menningarsamhengi á líðandi stundu
fjalla um ólík listform í samhengi við hefðir, tækifæri, boðskap, nýjar stefnur og lífsstíl
kynna niðurstöður sínar á fjölbreyttan hátt
taka á virkan hátt þátt í umræðu um verkefni sín og annarra nemenda
Námsmat er útfært í kennsluáætlun í samræmi við skólanámskrá.