Í áfanganum vinna nemendur að því marki að efla næmi sitt fyrir litanotkun og myndbyggingu á tvívíðum fleti og dýpka skilning sinn á meginatriðum hennar. Auk eigin athugana á eðli og möguleikum myndbyggingar, með notkun línu, flata og áferða, gera nemendur samanburð á eigin tilraunum og notkun myndbyggingar í ýmsum myndum úr umheiminum, svo sem ljósmyndum, myndlistarverkum og auglýsingum. Með þessu er reynt að meta hvernig mismunandi áhrifum er náð með ólíkri myndbyggingu og hvaða þátt myndbyggingin á í merkingu myndar. Nemendur vinna m.a. verkefni út frá nánasta umhverfi, bæði innan húss og utan og skila af sér myndaseríu unna með mismunandi tækni; ljósmyndun, skissugerð, vatnslitum, akríllitum og olíulitum. Einnig verður rýnt í verk og aðferðafræði þekktra listamanna frá ýmsum ólíkum tímabilum í listasögunni og unnin verkefni út frá þeirri skoðun. Samhliða rannsóknarvinnunni eru reglulegar umræður þar sem nemendur kynna niðurstöður sínar og gagnrýna hver annan á uppbyggilegan hátt. Tölvur skulu að einhverju leyti nýttar í vinnu áfangans til myndgreiningar og gagnsöfnunar.
SJÓN2LF05
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
forsendum myndbyggingar
markvissu þróunarferli í rannsóknum sínum
góðu valdi á myndbyggingu
hvernig unnið er á persónulegan hátt út frá myndbyggingu
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
þróa eigin hugmyndir í teikningu og málun
sýna frumleika í skipulagi og útfærslu myndverka sinna
vinna myndir þannig að gott jafnvægi sé milli einstakra þátta
blanda liti og nota þá markvisst í málverki
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
vinna myndir þannig að þær verði spennandi og fjölbreyttar án þess að missa tökin á öruggri myndbyggingu
fjalla um og meta eigin verk og annarra á upplýstan og greinargóðan hátt
ræða um og rökstyðja þær hugmyndir sem hann túlkar í verkum sínum
Námsmat er útfært í kennsluáætlun í samræmi við skólanámskrá.