Kvikmyndir hafa oft mikil áhrif á það hvernig við í samtímanum upplifum fortíðina og eiga það til að móta með afgerandi hætti viðhorf okkar til þeirra sögulegu atburða sem þær fjalla um. Í áfanganum, þar sem nemendur munu horfa á valdar sögulegar kvikmyndir, verður fjallað um það hvernig einstaka kvikmyndir endurspegla þá sögu sem þær fjalla um, þær verða settar í sögulegt samhengi og rýnt verður með gagnrýnum hætti í sannleiksgildi kvikmyndanna, m.a. með umfjöllun um það hvernig kvikmyndir eru notaðar í pólitískum tilgangi. Í samráði við kennara velja nemendur 4 - 5 afmörkuð söguleg þemu sem tekin verða til umfjöllunar í áfanganum og valdar kvikmyndir um hvert viðfangsefni verða sýndar og teknar til gagnrýninnar umfjöllunar í tímum. Nemendum verður úthlutað lesefni með sagnfræðilegri umfjöllun um einstök þemu til þess að auka sögulega þekkingu þeirra. Lessefnið er undirstaða þess að nemendur geti fjallað um einstaka kvikmyndir og þau sögulegu og pólitísku viðhorf sem þær endurspegla til áhorfandans. Markmið áfangans er að dýpka söguþekkingu nemenda og efla hæfni þeirra til gagnrýninnar umfjöllunar um söguna og hvernig henni er miðlað í afþreyingarefni samtímans.
Engar
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
þeim sögulegu atburðum og tímabilum sem til umfjöllunar verða í ljósi kvikmyndanna
helstu hugtökum og persónum sem tengjast þeim sögulegu viðfangsefnum sem til umfjöllunar verða
kvikmyndum og öðru sjónvarpsefni sem miðlunarformi sögunnar
áhrifum kvikmynda við að móta viðhorf, afstöðu áhorfenda til sögulegra atburða og hvernig unnt er að nýta kvikmyndir í áróðursskyni
helstu kvikmyndum og sjónvarpsefni sem fjalla um þau sögulegu viðfangsefni sem til umfjöllunar verða
þeim samtímaatburðum kvikmyndagerðar á síðastliðnum áratugum sem hafa haft áhrif á það hvernig sögulegu efni fyrri tíma er miðlað, m.t.t. valinna efnisþátta
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
lesa sagnfræðilega texta um viðfangsefni áfangans og túlka merkingu þeirra
afla sér upplýsinga um viðfangsefni áfangans, greina þær og setja í sögulegt samhengi
tjá sig í ræðu og riti um efni áfangans, rökræða efnið og geta miðlað því á fjölbreyttan máta
beita gagnrýninni hugsun gagnvart kvikmyndum sem miðlunarformi sögunnar
greina kvikmyndir og hvernig þær miðla sögulegum atburðum og tímabilum, þ.m.t. leikrænt tjáningarform, leikmyndir, leikmunir, búningar og önnur umgjörð sem miðlar sögunni á sjónrænan hátt
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
meta gildi og áhrif kvikmynda og annars sjónvarpsefnis við að móta samtímaviðhorf til sögulegra atburða
geta gagnrýnt kvikmyndir sem varða söguleg viðfangsefni og hvernig þær endurspegla það tímabil eða þá atburði sem þær fjalla um
koma söguþekkingu sinni og skilningi á efninu á framfæri með fjölbreytilegum hætti
geta tekið þátt í skoðanaskiptum og rökræðum með jafningjum um efni áfangans
geta greint hvernig framsetning leikrænnar tjáningar mótar afstöðu og viðhorf áhorfandans til þeirra sögulegu atburða sem til umfjöllunar eru.