Áhersla er lögð á að nemendur verði vel læsir á flóknari texta en áður. Þeir verða þjálfaðir í að tileinka sér grunnorðaforða vísinda og fræða, tjá hugsun sína skýrt í ræðu og riti og rökstyðja skoðanir sínar. Áhersla er lögð á vandlegan lestur texta með það fyrir augum að byggja upp virkan og hagnýtan orðaforða. Nemendur vinna áfram að því að kynnast hinum margbreytilegum menningarheimum landa þar sem enska er móðurmál þar sem nemendur afla sér þekkingar um venjur og siði þessara landa. Í tengslum við það verður unnið með hin ýmsu bókmenntaverk, kvikmyndir, heimildamyndir o.fl. sem túlkað verður út frá menningarlegu samhengi. Nemendur vinna í auknum mæli sjálfstætt að stærri ritunarverkefnum og viðameiri verkefnum svo sem kynningum á þematengdu efni sem fela í sér öflun upplýsinga á bókasafni og af neti. Unnið er markvisst að því að efla sjálfstæði nemenda í námi. Að hver nemandi finni eigin leiðir til að ná árangri í náminu og setji sér markmið.
ENSK2OT05
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
helstu menningarsvæðum þar sem tungumálið er notað sem móðurmál eða fyrsta mál
ólíkum viðhorfum og gildum og hvernig þau móta menninguna í þeim löndum þar sem tungumálið er notað
þverfaglegum orðaforða til markvissrar notkunar í námi á háskólastigi
rithefðum sem við eiga í textasmíð, m.a. um inngang með efnisyrðingu, meginmál með vel afmörkuðum efnisgreinum og niðurlag
mismunandi afstöðu og túlkun bókmenntahöfunda og dýpri merkingu texta.
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
lesa fjölbreyttar gerðir texta, bæði fræðilega og bókmenntalega
beita þeim lestraraðferðum sem við eiga eftir gerð texta eða viðfangsefnis
greina og skilja málfarsmun á mismunandi málsvæðum
tjá sig munnlega skýrt og hnökralaust um málefni sem hann hefur kynnt sér
tjá sig skriflega bæði á formlegan og óformlegan hátt.
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
skilja daglegt mál, fjölmiðlaefni, inntak erinda, fræðigreinar og annað flóknara efni
taka þátt í skoðanaskiptum, færa rök fyrir máli sínu og svara mótbárum og gagnrökum á viðeigandi hátt
tjá sig skýrt, lipurlega og blaðalaust fyrir áheyrendum um sérvalið efni sem hann hefur kynnt sér
skrifa formlegan og óformlegan texta og beita rithefðum sem við eiga í textasmíð
nýta nýjan orðaforða í ræðu og riti.
Leiðsagnarmat. Fjölbreytt verkefni metin jafnt og þétt yfir önnina. Áhersla á umsagnir sem leiða nemandann áfram. Engin skrifleg lokapróf.