Í áfanganum verða teknir fyrir valdir þættir í Íslands- og mannkynssögu frá upphafi sögulegs tíma fram að lokum 19. aldar. Samhliða er lögð áhersla á að nemendur öðlist undirstöðuþekkingu í verklagi sagnfræði sem fræðigreinar með megináherslu á notkun heimilda. Í áfanganum er kennslubók lögð til grundvallar sem ákveðinn grunnur en nemendur öðlast ákveðna dýpt í hverjum þætti með heimildaleit og verkefnavinnu sem henni tengist. Nemendur velja í samráði við kennara þau viðfangsefni sem verða til umfjöllunar úr kennslubókinni hverju sinni auk þess að hafa mikið val í lokaverkefnum hvers þáttar. Mikil áhersla er lögð á að nemendur kynnist mismunandi tegundum heimilda og læri að leggja mat á þær með gagnrýnni hugsun. Innan hvers þáttar verða sérhæfð verkefni unnin þar sem reynir á sjálfstæð vinnubrögð og samvinnu við aðra nemendur. Við verkefnavinnuna er einnig lögð áhersla á að nemendur kafi djúpt ofan í viðfangsefnin sem verða fyrir valinu og geti nýtt sér þá þekkingu sem þeir hafa aflað sér til að geta miðlað henni á frumlegan, fjölbreyttan og skapandi hátt í gegnum ólík miðlunarform sem nemendur velja sér sjálfir. Jafnframt er lögð áhersla á að nemendur taki ábyrgð á eigin námi og geti metið eigið framlag og annarra á uppbyggilegan hátt með fjölbreyttum matsaðferðum.
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
völdum þáttum í Íslands- og mannkynssögu frá uppihafi sögulegs tíma allt til ársins 1900
helstu hugtökum og persónum sem koma við sögu
mikilvægi gagnrýninnar hugsunar
undirstöðuatriðum sagnfræði sem fræðigreinar með megináherslu á heimildanotkun
mismunandi tegundum heimilda
tengslum hugmynda við samfélagið sem við búum í.
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
geta aflað sér fjölbreyttra heimilda um mismunandi viðfangsefni
nota heimildir til þess að miðla sögulegu efni á fjölbreyttan og skapandi hátt
meta gildi og áreiðanleika heimilda
vinna jafnt sjálfstætt og með öðrum að verkefnum
beita gagnrýninni hugsun
meta eigið framlag og framlag annarra með fjölbreyttum aðferðum.
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
geta miðlað sögulegum fróðleik á áhugaverðan og fjölbreyttan hátt
geta beitt gagnrýninni hugsun á markvissan hátt
geta borið saman ólík miðlunarform sögulegs fróðleiks
geta unnið með öðrum að sameiginlegu markmiði
geta tengt hugmyndir frá ýmsum tímabilum við eigið samfélag.
Leiðsagnarmat. Fjölbreytt verkefni metin jafnt og þétt yfir önnina. Áhersla á umsagnir sem leiða nemandann áfram. Engin skrifleg lokapróf.