Kvikmyndir eru ein vinsælasta afþreying sem við nýtum okkur í nútímasamfélagi. Kvikmyndir sem byggja á sögulegum atburðum hafa notið mikillar hylli í gegnum tíðina og gildir einu hvaða tímabil sögunnar þær einblína á. Í áfanganum verða kvikmyndir sem taka fyrir atburði frá mismunandi tímum teknar fyrir og þær greindar á fjölbreyttan hátt. Meginstefið í áfanganum er að nemendur greini hvernig farið er að þegar sögulegar kvikmyndir eru gerðar og reyni að sjá hvernig samfélagið hefur áhrif á gerð þeirra. Hvað skiptir máli? Horft verður á kvikmyndir í kennslustundum en auk þess eiga nemendur að greina afþreyingarefni sem þeir nýta sér dagsdaglega. Í greiningu á slíku efni reynir mjög á gagnrýna hugsun, sjálfstæða heimildaleit, sjálfstæða úrvinnslu efnis úr ýmsum áttum o.s.frv.
Ábyrgð nemenda á eigin námi er mikil, þeir þurfa t.d. að halda dagbók út alla önnina sem stuðlar að því. Verkefnavinnan fer að miklu leyti fram í málstofum eftir sýningu hverrar kvikmyndar og stórum og smáum verkefnum þar sem nemendur vinna ýmist einir eða með samnemendum þar sem allir bera jafn mikla ábyrgð. Til að stuðla að því verður jafningja- og sjálfsmat nýtt þar sem nemendur meta sig og aðra á uppbyggilegan hátt. Verkefnin sjálf nýta aðferðir sagnfræði sem fræðigreinar og nemendur nota þar verklag sem þeir hafa lært í fyrri áföngum til að miðla rökstuddum skoðunum sínum jafnt á fræðilegan sem og fjölbreyttan hátt. Lokaverkefnið sameinar þetta allt þar sem nemendur að setja fram sína eigin hugmynd að sögulegu afþreyingarefni.
SAGA2FR5 / SAGA2OL5
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
því hvernig sagan birtist í kvikmyndum og öðru afþreyingarefni
hvaða áhrif samfélagið hafi á gerð slíks efnis
áhrifum slíks efnis á söguskoðun í samfélaginu
mikilvægi gagnrýninnar hugsunar.
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
meta sögulegt efni í kvikmyndum og öðru afþreyingarefni
nota viðurkenndar heimildir til að mynda rökstudda skoðun
nýta fræðilegt efni jafnt á íslensku sem erlendum tungumálum
beita gagnrýninni hugsun
nýta sögulegt efni til að búa til afþreyingarefni.
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
geta tjáð skoðanir sínar á rökstuddan hátt í ræðu og riti
geta beitt gagnrýninni hugsun á markvissan hátt
geta búið til sögulegt afþreyingarefni á skapandi hátt
skilja áhrif sögulegs afþreyingarefnis á samfélagið og miðlað skoðun sinni
geta sett fram efni með verklagi sagnfræðinnar á viðurkenndan hátt.
Leiðsagnarmat. Fjölbreytt verkefni metin jafnt og þétt yfir önnina. Áhersla á umsagnir sem leiða nemandann áfram. Engin skrifleg lokapróf.