Markmið áfangans er að nemendur kynnist bókmenntum 20. aldarinnar og allt til dagsins í dag, læri að njóta þeirra og fái þjálfun í að fjalla um þær. Nemendur kynnast verkum nokkurra helstu höfunda samtímans og læra að greina og túlka ljóð, skáldsögur og annað laust mál. Einnig fá nemendur yfirlit yfir bókmenntasögu 20. aldar og þjálfast í að setja einstök verk í bókmenntasögulegt samhengi.
Þar sem þessi áfangi er lokaáfangi flestra nemenda í íslensku er lögð sérstök áhersla á sjálfstæð og öguð vinnubrögð í ritgerðasmíð og annarri verkefnavinnu.
Nemandi þarf að hafa lokið Íslensku 4
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
helstu höfundum, verkum og stefnum í íslenskum bókmenntum á 20. og 21. öld.
Nemandi skal geta skilgreint og borið saman ólíkar bókmenntastefnur og tengt íslenskar bókmenntir við helstu listastefnur Evrópu á tímabilinu.
Nemandi skal geta nýtt sér hugtök bókmenntafræðinnar við greiningu og túlkun bókmennta og annarra texta.
Nemandi skal skilja bókmenntalegt, sögulegt, félagslegt, menningarlegt og pólitískt samhengi í textum sem fjallað er um í áfanganum.
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
miðla þekkingu sinni með mismunandi aðferðum og ólíkum tjáningarformum, halda fyrirlestra, skrifa skýrslur og ritgerðir.
Nemandi þarf að sýna færni í að greina bókmenntatexta, skáldsögur, ljóð, smásögur og leikrit , og geta rætt um þá með viðeigandi hugtakanotkun.
Nemandi þarf að geta unnið úr bókmenntatextum og umfjöllun um bókmenntir og tengt við sína eigin úrvinnslu.
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
geta tekið þátt í umræðu um bókmenntir, fært rök fyrir máli sínu, tekið gagnrýni og veitt andsvör, bæði í hópnum og munnlegu prófi.
Nemandi skal sýna að hann getur sett sig í spor sögupersóna eða ljóðmælanda við mismunandi aðstæður.
Nemandi á að fá tækifæri til að þroska lestrarupplifun sína og skilning sem nýtist honum til enn frekari lestrar og úrvinnslu á bókmenntum í framtíðinni.
Námsmat felst í símati og fjölbreyttum verkefnum og prófum , til dæmis stórri ljóðaritgerð, munnlegu prófi úr skáldsögu, umfjöllun um leikrit og prófum úr bókmenntasögu.