Viðfangsefni áfangans er umfjöllun um mál og málnotkun frá ýmsum hliðum, t.d. kynjaumræðu, íslensk málsaga, norræn goðafræði, bókmenntalestur og ritun. Meðal þess sem farið er í er framburður og mállýskur, orðræðugreining, uppruni og skyldleiki orða og þróun orðaforðans. Fjallað er um norræn trúarbrögð og goðsagnir og helstu æsi og ásynjur. Þar er Snorra-Edda lesin. Einnig eru lesnar og greindar nútímabókmenntir sem tengjast goðafræði svo og nytjatextar frá ólíkum tímum, meðal annars auglýsingar. Nemendur fá þjálfun í að beita gagnrýninni hugsun og setja skoðun sína fram á skipulegan hátt í ræðu og riti. Nemendur skrifa rannsóknarritgerð og í tengslum við hana er kennd heimildaöflun og meðferð heimilda ásamt því að nemendur fá þjálfun í að leggja mat á heimildir.
Nemendur eiga að hafa staðist áfangann ÍSLE2AA05 áður en nám hefst í þessum áfanga.
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
Helstu atriðum í sögu íslensks máls frá fyrstu tíð til samtímans.
Skyldleika íslensku við önnur mál og helstu tungumálaættir Evrópu.
Helstu viðfangsefnum málvísindamanna.
Íslenskri málstefnu.
Íslenskum mállýskum og staðbundnum framburðareinkennum.
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
Nýta þekkingu á sögu íslensks máls til að lesa texta frá ólíkum tímum.
Nýta þekkingu á skyldleika íslensku við önnur mál við nám í erlendum tungumálum.
Skoða íslensku frá sjónarhorni málvísinda.
Geta aflað sér heimilda um tiltekið efni, lagt mat á þær og unnið skipulega úr þeim.
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
Geta tekið afstöðu til mikilvægis málræktar og málvöndunar.
Geta greint aðalatriði texta, nýtt þá hæfni í eigin skrifum og við skilning á textum annarra.
Geta tjáð sig í ræðu og riti um efni áfangans.
Námsmat byggir á fjölbreyttri verkefnavinnu auk lokaprófs.
Notaðar eru margs konar matsaðferðir, til dæmis sjálfsmat og jafningjamat.