Lagður er grunnur að vinnubrögðum í stærðfræði, nákvæmni í framsetningu, röksemdafærslu og lausnum verkefna og þrauta. Mikil áhersla er lögð á algebru, liðun og þáttun auk velda- og rótareikning. Auk þess er farið ítarlega í prósentureikning. Í rúmfræðinni er sérstaklega fjallað um frumreglur, skilgreiningar og reglur um horn og þríhyrninga og þannig búið til afleiðslukerfi. Nemendur kynnast hornaföllunum í rétthyrndum þríhyrningum. Um bekkjarkennslu er að ræða og fer kennslan að mestu leyti fram í formi fyrirlestra. Nemendur vinna ýmist sjálfstætt, í pörum eða í hópum.
Grunnskólapróf.
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
• liðun og þáttun
• veldareikningi og rótarreglum
• hlutfallareikningi, prósentureikningi, vöxtum og vaxtavöxtum
• frumsendum, skilgreiningum og reglum í evklíðskri rúmfræði
• þríhyrningum og hornaföllum
• jöfnum af fyrsta stigi, tveimur jöfnum með tveimur óþekktum stærðum, óuppsettum jöfnum
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
• beita þeim reglum sem tilheyra námsefninu og leysa verkefni og dæmi sem lögð eru fyrir
• beita velda- og rótarreglum
• fylgja eftir sönnunum á stærðfræðireglum
• setja upp og leysa jöfnur sem innihalda tvær óþekktar stærðir
• reikna stærð allra horna og hliða í þríhyrningum með notkun hornafalla og annarra reikniregla
• meðhöndla algebrubrot
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
• setja sig inn í og túlka útskýringar og röksemdir annarra
• skrá lausnir sínar skipulega, skiptast á skoðunum um þær við aðra og útskýra hugmyndir sínar
• átta sig á tengslum ólíkra aðferða við lausn og framsetningu
• vinna með merkingu og tengsl hugtaka í námsefninu
• beita skipulegum aðferðum við lausnir þrauta úr kunnuglegu samhengi og geta útskýrt aðferðir sínar
• beita gagnrýninni og skapandi hugsun og sýna áræðni, frumkvæði, innsæi og frumleika við lausnir
• klæða hversdagsleg verkefni í stærðfræðilegan búning, leysa þau og túlka lausnir
• fylgja og skilja röksemdir í mæltu máli og texta og beita einföldum röksemdum
Námsmat er samsett úr vinnueinkunn á grundvelli ástundunar, verkefnavinnu og skyndikannanna auk skriflegs lokaprófs í lok annar.