Áfanginn er grunnáfangi í eðlisfræði, þar sem æfð er framsetning og lausn hagnýtra verkefna sem tangjast einfaldri hreyfingu hluta eftir línu, fallhreyfingu, lögmálum Newtons, vélrænni orku og raforku. Kennslan fer aðallega fram með samblandi af fyrirlestrum og dæmareikningi, auk verkefnavinnu. Verklegar æfingar eru einnig hluti kennslunnar þar sem nemendur vinna saman í hópum og skila verkbók.
STÆR2ÞA05, STÆRHJ05 samhliða
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
• helstu hugtökum og jöfnum sem notuð eru í hreyfifræði, aflfræði og eðlisfræði vökva
• muninum á milli stigstærða og vigurstærða
• lögmálum Newtons, Hookes, Arkimedesar, Bernoullis og Poiseuilles
• varðveislulögmáli orkunnar og skriðþunga
• hvernig ofangreind hugtök tengjast innbyrðis
• hvernig ofangreind hugtök og lögmál tengjast daglega lífinu
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
• lýsa hreyfingu hlutar í einni vídd þegar um jafnan hraða eða jafna hröðun er að ræða
• beita lögmálum Newtons til að setja upp og leysa verkefni í aflfræði einfaldra kerfa
• nota vigra til að liða krafta í þætti og leggja saman krafta
• beita vinnu-orku-lögmálinu á einföld tilvik
• setja upp jöfnur sem lýsa því hvernig afköst, vinna og orka geta spilað saman í einföldum tilvikum
• leysa einföld verkefni um samband raforku og hreyfingar rafbera í rafsviði
• beita lögmáli Ohms til að vinna með einfaldar rafrásir, og tengja hugtök rafmagnsfræðinnar við daglegt líf og líffræðilega þætti
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
• taka þátt í hópvinnu og miðla af eigin þekkingu
• skilja hvernig hegðun hluta í daglega lífinu endurspeglar það að efnisheimurinn sé háður lögmálum sem eru í fyrstu nálgun einföld og skiljanleg
• túlka heiminn í jöfnum, þ.e. að yfirfæra almennt orðuð viðfangsefni á táknbundið tungumál eðlisfræðarinnar
• útskýra dýpri fræðileg tengsl milli eðlisfræðilegra stærða, sér í lagi tengsl atlags við breytingu skriðþunga (J = FΔt = Δp), og samhengi við vinnu sem margfeldi krafts og vegalengdar (W = FΔs = ΔE)
• gera sér grein fyrir sinni eigin stöðu í eðlisfræðinámi
• framkvæma, skilja og vinna úr verklegum æfingum sem tengjast námsefninu, og setja niðurstöður mælinga í samhengi við fræði
Byggir á lokaprófi, tímaprófum, verklegum æfingum, vinnusemi í kennslutímum, heimanámi og hópvinnu.