Farið er yfir bókun á helstu reikningum fyrirtækja t.d. notkun fyrningareikninga við afskriftir eigna, bókun verðbréfa, hlutabréfa, skuldabréfa og annarra skuldaviðurkenninga og notkun affallareiknings. Fjallað er um helstu atriði launabókhalds. Einnig er farið yfir bókanir sem varða innflutning; tollafgreiðslu, greiðslu virðisaukaskatts í tolli, kostnað og fyrirkomulag við geymslu á vörum í tollvörugeymslu. Uppgjörsfærslum er haldið áfram, bæði í gegnum aðalbók og reikningsjöfnuð. Farið er yfir bókanir í sambandi við stofnun og slit fyrirtækja, breytingar á réttarformi, samruna og fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja. Mikil áhersla er lögð á vönduð vinnubrögð nemanda og góðan frágang. Nemandinn fær frekari æfingu í notkun töflureiknis við færslu bókhaldsins.
BÓKF1DH05
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
færslum varðandi innflutning á vörum
helstu innflutningsskjölum
tollafgreiðslu og greiðslu virðisaukaskatts í tolli
gengisbreytingum og kostnaði
fyrirkomulagi við geymslu á vörum í töllvörugeymslu
fyrningum
launabókhaldi þ.m.t. staðgreiðslu skatta, framlagi í lífeyrissjóð og tryggingagjaldi
verðbótum, vöxtum og afborgunum af verðtryggðum skuldabréfum, arðgreiðslum o.fl.
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
reikna og bóka verðbætur, vexti og afborganir af verðtryggðum skuldabréfum
bóka færslur sem tengdar eru hlutabréfaeign s.s. arð, gengisbreytingar, jöfnunarhlutabréf o.s.frv.
reikna út og gera upp virðisaukaskatt
færa launabókhald og standa skil á staðgreiðslu skatta, framlagi í lífeyrissjóð og tryggingagjaldi
færa færslur sem varða stofnun og slit fyrirtækja
bóka færslur sem varða breytingar á réttarformi fyrirtækja, samruna og fjárhagslegri endurskipulagningu þeirra
nota töflureikni við útreikninga og færslu bókhalds
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
færa bókhald fyrir lítið fyrirtæki
nýta sér upplýsinga um verðbætur, gengi, staðgreiðslu og skyld hugtök
Lögð er áhersla á fjölbreytt námsmat með leiðsögn. Námsmatið er í höndum kennara viðkomandi áfanga en þarf að fylgja þeim reglum sem kveðið er á um í skólanámskrá VMA.