Áfanginn er hluti af almennum kjarna á náttúruvísindabraut og félagsvísindabraut. Farið verður yfir valda þætti vestrænnar menningar frá fornöld og fram á 19. öld. Áherslan er lögð á fimm meginþætti: Sögu Grikkja og Rómverja, miðaldir/uppgang og áhrif kristninnar og íslam, siðaskiptin og landafundina, upphaf nútímaþjóðfélags með áherslu á upplýsinguna/iðnbyltinguna/lýðræðishugmyndina og umrót 19. aldar. Íslandssögunni verður blandað inn í fyrrgreinda þætti og áhersla lögð á að nemendur átti sig á samhengingu á milli hennar og Evrópusögunnar. Samhliða umfjölluninni verður lögð áhersla á að nemendur átti sig á samhengi og samfellu í sögunni, leggi mat á viðfangsefnið. Nemendur vinna verkefni, bæði einstaklingsverkefni og hópverkefni, sem þjálfa sjálfstæð vinnubrögð og gagnrýna hugsun. Jafnframt verður áhersla lögð á heimildaleit, mismunandi heimildir og heimildarýni.
Engar
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
völdum þáttum vestrænnar sögu frá upphafi og fram á 19. öld, upphafi þeirra og einkennum
helstu hugtökum og áhrifaþáttum, sem einkenna tímaskeiðin
samhengi Íslandssögunnar við Evrópusöguna
ýmsum tegundum heimilda og helstu vinnubrögðum við heimildaleit og heimildanotkun
tengslum og samspili fortíðar og nútíðar
mikilvægi gagnrýninnar hugsunar
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
lesa einfalda sagnfræðilega texta á íslensku og ensku og túlka þá
greina aðalatriði frá aukaatriðum og setja fram á skipulagðan hátt
meta orsakir og afleiðingar
meta áreiðanleika heimilda á gagnrýninn hátt og nýta sér fjölbreytni þeirra í verkefnavinnu
setja upp sögulega heimildaritgerð, þar sem áhersla er lögð á viðurkennd vinnubrögð
nýta sér ólík miðlunarform í framsetningu efnis
leysa verkefni í samvinnu við aðra og skiptast á skoðunum á málefnalegan hátt
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
sjá söguleg tímabil út frá forsendum hvers tímaskeiðs
koma þekkingu sinni á framfæri með fjölbreyttum hætti
geti tekið þátt í skoðanaskiptum og rökræðu með jafningjum um sagnfræðileg efni sem tekin eru fyrir í áfanganum
beita gagnrýnni hugsun
Ekki er gert ráð fyrir lokaprófi. Í námsmati er tekið mið af leiðsagnarmati, einstaklingsvinnu, hópverkefnum og smærri prófum.