Í áfanganum er lögð áhersla á að efla hjá nemandanum alla þætti tungumálsins, að efla sjálfsöryggi hans svo og sjálfstæði í vinnubrögðum. Nemendur vinna með 3-4 þemu, en hver og einn velur mikið til sjálfur sitt viðfangsefni og hvernig unnið er með það hverju sinni. Nemendur skipuleggja ferð til Kaupmannahafnar sem verður farin ef áhugi er til staðar. Kennslan fer fram á dönsku.
Tal: Áhersla er lögð á að nemendur þjálfist í réttum framburði tungumálsins. Nemendur kynna munnlega verkefni sem búið er að vinna með og svara fyrirspurnum frá kennara og samnemendum. Nemendur vinna ýmis önnur sjálfstæð munnleg verkefni einir eða í litlum hópum. Nemendur færa nánari rök fyrir máli sínu í tengslum við verkefni sín í samtali við kennara.
Hlustun: Hlustun byggist aðallega á að horfa á alls konar sjónvarpsþætti og annað efni á netinu.
Ritun: Nemendur skrifa ýmiss konar texta eins og t.d. smásögur, blaðagreinar og skoðanir sínar á málefnum til birtingar á netmiðlum eða í dagblöðum.
Lestur: Nemendur velja og lesa eina skáldsögu, nokkrar smásögur og ýmiss konar texta af neti þegar er verið að afla sér upplýsinga t.d. í sambandi við þemavinnu.
DAN2LM05
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
orðasamböndum sem eru einkennandi fyrir ritað og talað mál
sértækum orðaforða sem hentar því viðfangsefni sem hann vinnur með
hefðum um uppsetningu og skipulag ritaðs máls
gildum og viðhorfum í dönsku samfélagi
töluðu máli og hlustunarefni af neti um kunnuglegt og nýtt efni
nýjum og eldri bókmenntatextum svo og mismunandi sérhæfðum textum eins og t.d. leiðbeiningum
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
beita orðasamböndum sem eru einkennandi fyrir ritað og talað mál
skilja dönsku sem töluð er við mismunandi aðstæður og með mismunandi hreim
lesa margs konar tegundir texta
beita mismunandi lestraraðferðum allt eftir tegundum texta og eðli verkefna sem unnið er með
beita gagnrýninni hugsun í ritun og tali og láta skoðanir koma fram á skýran hátt
flytja munnlega af öryggi verkefni fyrir nemendahópinn sem og kennara.
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
vinna að skapandi verkefnum
skilja fjölmiðlaefni og megininntak erinda, jafnvel um flókið efni, ef hann þekkir til þess
beita skýru og lýtalausu máli í ræðu og riti
flytja verkefni fyrir framan nemendahóp og kennara af sannfæringu og innlifun
taka þátt í umræðum, færa rök fyrir máli sínu, tjá afstöðu sína og efasemdir um efnið og komast að niðurstöðu; enn fremur að eiga frumkvæði í samræðum og að bregðast við óvæntum spurningum
leysa ýmis mál sem upp koma í samskiptum nemenda á milli og vera tilbúinn til að finna málamiðlun; enn fremur að útskýra sjónarmið sín og rekja ólikar skoðanir með og á móti málefninu
bera ábyrgð og vera hvetjandi og sveigjanlegur í samvinnu
túlka texta í rituðu og töluðu máli
Símat og leiðsagnarmat sem byggir á fjölbreyttu námsmati í tengslum við verkefnavinnu og þemavinnu, einnig jafningjamati, smærri prófum og könnunum. Matið tekur til allra færniþátta, þ.e. hlustunar, tals, ritunar og lesturs.