Í áfanganum er rætt um líffræðilega fjölbreytni, lífbelti, orkuflæði í vistkerfum, efnahringrásir, framvindu, samskipti lífvera, stofna, samfélög, stofnvöxt og stofnmælingaraðferðir. Fjallað er um áhrif umhverfis á þróun og atferli, íslensk vistkerfi, nytjastofna og sjálfbæra nýtingu auðlinda. Þá er rætt um þverfræðilegt eðli umhverfisfræðanna, um sjálfbæra þróun, vistspor, þjónustu vistkerfa, umhverfissiðfræði og umhverfismál svo sem gróðureyðingu, gróðurhúsaáhrif, súrt regn, eyðileggingu búsvæða, útdauða tegunda, mengun, mannfjöldaþróun, náttúruvernd og fleira. Umhverfismál sem eru efst á baugi hverju sinni eru skoðuð sérstaklega. Áhersla er lögð á lausnir og leiðir að sjálfbærni.
LÍFF1GL03(FB)
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
grunnlögmálum og ferlum vistkerfa, efnahringrásum, fæðukeðjum, lífbeltum, líffræðilegum fjölbreytileika, samskiptum lífvera og nokkrum helstu rannsóknaraðferðum vistfræðinnar
stofnvexti, stofnvaxtarlíkönum og mannfjöldaþróun
áhrifum mannsins á umhverfið áður fyrr og nú, bæði hérlendis og erlendis
þverfræðilegu eðli umhverfismála, flóknu samspili lífkerfis, hagkerfis og samfélags og hugmyndinni um sjálfbæra þróun
fjölbreyttum leiðum einstaklingsins til vistvænni lifnaðarhátta
tengslum umhverfis við heilbrigði og velferð
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
setja fram og túlka einfaldar myndir og línurit
vinna sjálfstætt við framkvæmd verklegra æfinga og geta útskýrt niðurstöður í máli og skriflegum skýrslum
nýta sér jöfnur til úrlausnar verkefna
tjá skoðanir sínar og verkefni á skýran hátt og í rökréttu samhengi við námsefnið
meta áhrif hversdagslegra athafna og ákvarðana á umhverfið
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
beita skipulegum aðferðum og skráningu við úrlausnir verkefna og tilrauna/verklegra æfinga
sýna sjálfstæði við að miðla upplýsingum um vistfræði og umhverfismál skriflega og munnlega
leggja mat á og hagnýta upplýsingar sem tengjast umhverfisáhrifum mannkyns og sjálfbærri þróun í samfélaginu á gagnrýninn hátt
átta sig á mikilvægi þess að hugsa hnattrænt og bregðast við á heimaslóð
Námsmat tekur mið af þekkingar-, leikni- og hæfniviðmiðum áfangans og samanstendur af fjölbreyttum verkefnum, skýrslum, hlutaprófum og lokaprófi.