Grunnatriði í jarðfræði, kortagerð og áhrif manns á umhverfi
Samþykkt af skóla
1
3
FB
Áfanginn er grunnáfangi í jarðfræði og í honum er unnið að því að skapa þekkingu á þeim ferlum sem virka ofan- og neðanjarðar. Fræðileg umfjöllun greinarinnar verður tengd við þau ummerki sem eru sýnileg í landslaginu í nágrenninu og jarðfræðin þannig notuð til að skapa áhuga og skilning á umhverfinu, sjálfbærni og notagildi jarðfræði í leik og starfi. Farið verður í kort og kortagerð og notkun kortagagna sem hjálpartækis í náttúruvísindum. Fjallað verður um innri gerð jarðar, landrekskenninguna, mismunandi flekamót og möttulstróka og í tengslum við það upptök jarðskjálfta og eldvirkni á jörðinni. Jarðvarmasvæði á Íslandi verða skoðuð, skipting þeirra í lághita- og háhitasvæði og nýting þeirra. Farið verður í þá þætti jarðfræðinnar sem flokkast til útrænna afla eins og grunnvatn og fallvötn, nýtingu þeirra og mikilvægi fyrir mannkynið. Þá er lögð áhersla á vatn sem rofafl, bæði árrof og jökulrof, og þau ummerki sem rofið skilur eftir sig. Í gegnum allan áfangann verða áhrif manns á náttúru jarðar skoðuð.
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
notkun korta
innri gerð jarðar og áhrifum þeirra afla sem þar eiga sér stað
útrænum öflum, áhrifum þeirra, afleiðingum og nýtingu
mikilvægi vatns fyrir mannkynið
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
lesa kort og teikna þversnið
beita grunnhugtökum jarðfræðinnar
staðsetja og útskýra jarðfræðilega atburði vegna innrænna og útrænna afla
afla sér upplýsinga um ýmis jarðfræðileg viðfangsefni
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
tengja undirstöðuþekkingu í jarðfræði við daglegt líf og umhverfi
mynda sér skoðun um ýmis álitamál sem koma upp varðandi nýtingu náttúrunnar
tjá sig um og miðla til annarra upplýsingum sem varða hin ýmsu jarðfræðilegu málefni
útskýra og svara spurningum um jarðfræðileg málefni
Námsmatið tekur mið af þekkingar- leikni og hæfniviðmiðum áfangans með fjölbreyttum verkefnum, vettvangsferðum, fyrirlestrum, hópverkefnum, skyndiprófum og/eða lokaprófi.