Áfanginn fjallar um myndun og mótun lands og tekur umfjöllunin sérstakt mið af jarðfræði Íslands. Farið verður í bergfræði jarðar, myndun bergtegunda og steinda og berggreiningu. Fjallað verður um upptök jarðskjálfta, jarðskjálftabylgjur og mælingar og ummerki jarðskjálfta á yfirborði jarðar. Farið verður í eldvirkni og afleiðingar hennar almennt á jörðinni með sérstaka áherslu á Ísland og íslenskar eldstöðvar. Fjallað verður um mótun lands af völdum útrænna afla.
Markmið námsins snýst um að nemendur öðlist yfirsýn og þekkingu á þeim jarðfræðilegu lögmálum sem blasa hvarvetna við okkur. Takmarkið er að gera nemendur læsa á umhverfi sitt og þannig auka yfirsýn og skilning sem geta leitt til vitundar og virðingar fyrir náttúrulegum ferlum. Jafnframt öðlast nemendur nauðsynlegan grunn og færni til frekara náms í jarðfræði.
JARÐ1GJ03
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
hugtökum, kenningum og aðferðum jarðfræðinnar
flokkun bergs og hvernig hún endurspeglar ólík birtingarform jarðfræðilegra ferla
orsökum jarðskjálfta á Íslandi
eldvirkni á Íslandi, ummerkjum um hana og staðsetningu
samspili innrænna og útrænna afla og hvernig þekkja má ummerki eftir þau
roföflum og hvernig ólík öfl móta landið
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
beita hugtökum og kenningum á skilmerkilegan hátt og í rökrænu samhengi
greina ummerki innrænna og útrænna afla við landmótun og álykta um þau
staðsetja náttúrufyrirbæri á Íslandi og tengja náttúrufarslega þætti við staðsetninguna
greina berg og steindir og geta nýtt bergfræði við flokkun og túlkun jarðfræðilegra fyrirbæra
teikna þversnið til túlkunar á landslagi
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
geta lesið í umhverfi sitt og flokkað, aðgreint og tengt atriði eftir aðstæðum og samhengi
geta dregið ályktanir af ólíkum aðstæðum á Íslandi varðandi landslag og jarðmyndanir
tengja undirstöðuþætti jarðfræðinnar við umhverfi sitt og geta fjallað á rökrænan hátt um mikilvægi þeirra fyrir daglegt líf
sýna sjálfstæð og öguð vinnubrögð og geta nýtt sér þá þekkingu og leikni sem hann hefur öðlast í áfanganum til þess að útskýra þá jarðfræðilegu atburði sem eiga sér stað hverju sinni
Námsmatið tekur mið af þekkingar-, leikni- og hæfniviðmiðum áfangans með fjölbreyttum verkefnum, vettvangsferðum , fyrirlestrum, hópverkefnum, skyndiprófum og/eða lokaprófi.