Í áfanganum er haldið áfram að fjalla um grunnatriði trésmíða með áherslu á þekkingu og færni í smíði úr plötuefni og harðviði. Nemandinn fæst við mismunandi samsetningar, límingar, pússningu, litun og yfirborðsmeðferð. Nemandinn lærir um lakk– og bæstegundir, að vinna með viðarspón og kantlímingar og ýmsar leiðir til samsetninga á hornum. Nemandinn lærir um plasthúðaðar plötur og lagningu harðplasts, ásamt eiginleikum, flokkun og þurrkun viðar. Nemandinn fær fræðslu um öryggismál á trésmíðaverkstæðum og þær hættur sem leynst geta á vinnusvæðinu. Nemandinn lærir hvernig ganga skuli um tæki og vélar og að nota nauðsynlegar persónu- og öryggishlífar. Áhersla er lögð á að vinna í áfanganum verði sem líkust vinnu á trésmíðaverkstæði. Áfanginn er bæði ætlaður húsa– og húsgagnasmiðum.
TRÉS1SL06
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
vinnuumhverfi trésmiða
öryggismálum á trésmíðaverkstæðum
algengum tegundum smíðaviðar
algengustu plötutegundum
spónvinnslu og plastlagningu
algengustu trésmíðavélum
algengustu rafmagnshandverkfærum
helstu trésamsetningum
helstu samsetningaraðferðum á plötum
yfirborðsmeðferð á smíðaviði
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
nota mismunandi smíðavið og efni
beita algengum handverkfærum og trésmíðavélum
nota áhöld til mælinga og uppmerkinga
brýna sporjárn og hefiltennur
beita lakksprautu til yfirborðsmeðferðar
nota persónuhlífar við verkstæðisvinnu
nota öryggishlífar á trésmíðavélum
beita spónskurðarverkfærum
framkvæma mismunandi spónsamsetningar
spón– og plastleggja plötuefni
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
smíða eftir teikningum og verklýsingum
leysa af hendi fjölbreytt smíðaverkefni
vinna með helstu tæki og vélar sem notuð eru við störf á trésmíðaverkstæði
forðast þær hættur sem leynst geta á trésmíðaverkstæði
stilla öryggishlífar á trésmíðavélum á réttan hátt
starfa á trésmíðaverkstæði
Lögð er áhersla á fjölbreytt námsmat með leiðsögn. Námsmatið er í höndum kennara viðkomandi áfanga en fylgja þarf þeim reglum sem kveðið er á um í skólanámskrá VMA.