Fjallað verður almennt um lyf og þau hugtök sem notuð eru í lyfjafræði eins og lyfjaform, ábendingar, frábendingar, aukaverkanir, frásog, skammtastærðir, flokkun lyfja, helmingunartíma, læknisfræðilegan stuðul, aðgengi og meðhöndlun lyfja. Teknir verða fyrir helstu lyfjaflokkar sem tengjast algengum kvillum og sjúkdómum s.s. geðsjúkdómum, hjarta- og æðasjúkdómum, meltingarsjúkdómum, sykursýki, stoðkerfissjúkdómum og verkjum, húðsjúkdómum, öndunarfærasjúkdómum o.fl. ásamt öðrum algengum lyfjum. Lögð verður áhersla á að gera nemendur leikna í að afla sér hagnýtra upplýsinga í sambandi við lyf og farið í mikilvæg atriði varðandi lyfjaform og lyfjagjöf. Tekin verður umræða um ýmis álitamál varðandi misnotkun lyfja.
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
helstu lyfjaflokkum við algengum sjúkdómum og kvillum.
ATC -flokkunarkerfi lyfja.
hugtökum sem notuð eru í lyfjafræði varðandi virkni lyfja, frásog, umbrot og útskilnað úr líkamanum.
öflun áreiðanlegra upplýsinga um lyf.
mikilvægum atriðum varðandi lyfjaform og lyfjagjöf.
lyfjamisnotkun og ávanahættu ákveðinna lyfja.
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
lesa fylgiseðla lyfja og greina upplýsingar þeirra.
afla sér mikilvægra upplýsinga í sambandi við lyf og hvernig er hægt að leita að upplýsingum um lyf með mismunandi hætti inn á sérlyfjaskrá.
aðstoða skjólstæðinga við notkun á ýmsum lyfjaformum.
leita upplýsinga um algeng lyf sem tengjast lyfjamisnotkun.
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
nálgast mikilvægar upplýsingar varðandi lyf sem metið er með verkefnum.
miðla upplýsingum um lyf til skjólstæðinga sem metið er með umræðum og leiðsagnamati.
átta sig á tengslum aukaverkana lyfja við verkun þeirra sem metið er með verkefnum og prófi.
tjá sig um ýmis álitamál tengd misnotkun á lyfjum sem metið er með umræðum.
leiðbeina og aðstoða skjólstæðinga við töku tiltekinna lyfjaskammta.
Í áfanganum verður stuðst við fjölbreyttar námsmatsaðferðir og áhersla lögð á leiðsagnarmat. Nemendur vinna fjölbreytt verkefni s.s. einstaklingsverkefni, hópverkefni, umræðuverkefni og netverkefni. Nemendur taka einnig þátt í verklegum æfingum ásamt því að taka próf.