Nemendur kynnast lagaumhverfi sjávarútvegs og siglinga, þ.e. helstu lögum og reglum um siglingar og útgerð og þá sérstaklega það sem lýtur að hlutverki, ábyrgð og skyldum skipstjórnar- og vélstjórnarmanna. Fjallað er um meginatriði löggjafar og réttarheimilda um varnir gegn mengun sjávar auk þess sem vikið er að uppbyggingu alþjóðlegs og fjölþjóðlegs samstarfs á vettvangi SÞ (Sameinuðu þjóðanna),
ESB (Evrópusambandsins) og EES (Evrópska efnahagssvæðisins).
Nemendur skulu m.a. öðlast grunnþekkingu á helstu réttarreglum um siglingar og útgerð, á meginreglum vinnuréttar og skaðabótaréttar og á reglum um vátryggingar í skiparekstri. Sérstaklega er fjallað um lög og reglur, gerð og búnað, skráningu og eftirlit með skipum.
Fjallað er um réttindi yfir skipum, réttindi og skyldur skipverja samkvæmt sjómannalögum, um skiprúmssamninga og um lögskráningu. Fjallað er um efni helstu alþjóðasamþykkta sem eru í gildi, um helstu tilskipanir og reglugerðir Evrópusambandsins á sviði siglinga svo og
um íslenska löggjöf á þessu sviði, með áherslu á fiskveiðar og fiskiskip.
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
uppbyggingu íslensks réttarkerfis og helstu lagareglum um siglingar og útgerð
valdheimildum stjórnvalda og réttarheimildum er varða siglingar og útgerð
réttarstöðu Íslands gagnvart ákvæðum EES-samningsins, stjórnskipan Evrópusambandsins og stofnanir þess, þ.m.t. EMSA
helstu ákvæðum laga um stjórn fiskveiða, veiða í fiskveiðilandhelginni og réttarreglum um ábyrgð skipstjóra við fiskveiðar innan og utan íslensku efnahagslögsögunnar
grundvallaratriðum vinnuréttar, skyldum og réttindum launþega, ábyrgð í starfi, sérreglum um sjómenn með áherslu á fiskimenn, réttindi og skyldur skipstjóra og áhafnar og löggjöf um áhafnir á íslenskum skipum, þ.m.t. um lögskráningu
lögum og reglum sem lúta að réttindum til starfa á skipum, um mönnun skipa og ákvæði laga um vinnu- og hvíldartíma sjómanna
lögum og reglum um umhverfisvernd og varnir gegn mengun frá skipum
ábyrgð og skyldum vegna annarra alþjóðasamþykkta sem varða öryggi skipa, skipverja, farþega og farms
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
kynna sér lög og reglur er lúta að starfsumhverfi hans
kynna sér alþjóðasamþykktir er lúta að skipum og siglingum
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
túlka lög og reglur er lúta að sjómennsku og siglingum og fara eftir þeim
Lögð er áhersla á fjölbreytt námsmat með leiðsögn. Námsmatið er í höndum kennara viðkomandi áfanga en þarf að fylgja þeim reglum sem kveðið er á um í skólanámskrá VMA.