Í áfanganum lærir nemandinn að nýta sér útreikninga, verkáætlanir og eyðublöð við gæðastjórnun á vinnustað. Nemandinn lærir að nýta töflureikni– og verkáætlanaforrit til að hafa yfirsýn yfir kostnaðarþætti verkefna, verkefnastýringu, gerð tímaáætlana og endurskoðun áætlana. Nemandinn lærir um notkun stjórnunar– og verkferla gæðatryggingar við verklegar framkvæmdir, ásamt sundurliðun verkefna og verkáætlanagerð. Áfanginn er sameiginlegur öllum bygginga– og mannvirkjagreinum og fer að mestu fram með raunhæfum verkefnum, þar sem m.a. er unnið með verðskrár einstakra iðngreina.
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
verkefnastýringu og gæðastjórnun við byggingaferli
verðskrám iðngreina og gerð kostnaðaráætlana
uppbyggingu töflureikna og hagnýtingu þeirra
áætlanagerð og verkáætlanaforritum
tölvuforritum sem notuð eru til að gera verkáætlanir og hagnýtingu þeirra
helstu stjórnunar– og verkferlum
meðhöndlun og vistun nýrra teikninga og verklýsinga
móttöku efna á vinnusvæði
dagbókarhaldi og úttektum
meðhöndlun frábrigða/galla
innra eftirliti með einstökum verkþáttum verkefnis– og verkþáttarýni
gæðatryggingu samkvæmt reglugerðum um gæðakerfi við verklegar framkvæmdir
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
magntaka og kostnaðarreikna einfalda þætti verklegra framkvæmda
gera verk– og tímaáætlanir
fylgja eftir gæðastjórnun á verkferlum
vinna eftir bygginga– og skipulagslögum nota töflureikni við útreikninga
nota verkáætlanaforrit við gerð tímaáætlana
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
magntaka og kostnaðarreikna einfalda verkþætti á sjálfstæðan hátt
beita tíma– og hráefnaskráningu
vinna með tölvuforrit sem notuð eru til að gera verkáætlanir
beita og fylgja eftir innra eftirliti með einstökum verkþáttum
fara að lögum og reglugerðum um skipulags– og byggingarmál
Lögð er áhersla á fjölbreytt námsmat með leiðsögn. Námsmatið er í höndum kennara viðkomandi áfanga en þarf að fylgja þeim reglum sem kveðið er á um í skólanámskrá VMA.