Í áfanganum lærir nemandinn um viðgerðir og endurbætur á eldri byggingum og mannvirkjum úr steini og tré. Nemandinn lærir um mikilvægi þess að varðveita byggingarsögulegt gildi húsa á sama tíma og hann reynir að koma til móts við kröfur nútímans um endingu, þægindi og brunavarnir með hliðsjón af lögum og reglum. Nemandinn lærir að meta umfang endurbóta með tilliti til kostnaðar og reglugerða ásamt greiningu á fúa, myglu, og steypuskemmdum, endurnýjun á burðarvirkjum, klæðningum, gluggum, hurðum og öðrum byggingarhlutum. Jafnframt lærir nemandinn um algenga breytingavinnu svo sem endurnýjun á gleri, smíði viðbygginga, breytinga á þökum og endurbætur vegna illa grundarðra húsa. Kennslan er aðallega bókleg en einnig verkleg þar sem við á. Lögð er áhersla á minni verkefni og sýnikennslu. Áfanginn er ætlaður verðandi húsasmiðum.
BURÐ1BK03 og TIMB2VS16
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
byggingasögu
varðveislugildi mannvirkja
verklagi og reglum um endurgerð eldri bygginga
umfangi, áætlunum og kostnaði endurbóta
mismunandi aðferðum við endurbætur
efnisvali með tilliti til aldurs bygginga
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
vinna sjálfstætt
greina og meta þörf á endurbótum
gera áætlun um kostnað og umfang endurbóta
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
tengja saman alla þætti vinnustaðanáms og skólans
gera endurbætur við hæfi á mannvirkjum frá mismunandi tímum
Lögð er áhersla á fjölbreytt námsmat með leiðsögn. Námsmatið er í höndum kennara viðkomandi áfanga en þarf að fylgja þeim reglum sem kveðið er á um í skólanámskrá VMA.