Markmið áfangans er að efla nemandann sem íþróttamann, bæði líkamlega og faglega. Áfanginn er þríþættur og byggir á styrkþjálfun þar sem nemendur velja sér áherslur í líkamlegri þjálfun í samstarfi við kennara. Annar þátturinn felst í tækniþjálfun og verkefnavinnu sem er sérsniðin að viðkomandi íþróttagrein. Þriðji þátturinn er fólginn í skipulagningu og kynningu á lokaverkefni þar sem nemendur geta unnið saman og fá að velja sér viðfangsefni úr því efni sem farið hefur verið í á sviðinu. Gerðar eru kröfur til nemenda um góða ástundun og námsárangur.
AFÍÞ3UA05/AFR3A05
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
grunnatriðum í skipulagningu og framkvæmd rannsóknar, s.s. upplýsingaöflun, gagnaöflun og framsetning niðurstaðna, bæði skriflega og munnlega.
undirstöðuatriðum í tjáningu og framkomu.
flóknum tækniatriðum í viðkomandi íþróttagrein.
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
leita sér að og greina upplýsingar í áreiðanlegum heimildum.
fjalla skriflega og munnlega um ákveðið viðfangsefni á skipulegan hátt.
ástunda góða og rétta líkamsbeitingu við þjálfun styrks og afls.
framkvæma flókin tæknileg atriði í hreyfingum í viðkomandi íþróttagrein.
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
afla, greina, og miðla niðurstöðum af rannsókn tengdri afrekshugsun, sálfræði, næringu eða þjálffræði.
skipuleggja eigin verk og vinna sjálfstætt frá hugmynd að lokaafurð.
auka styrk, tækni og hraða eftir því sem við á í hverri íþróttagrein, sem metið er með líkamlegum prófum.
nota rétta tækni í flóknum hreyfingum í viðkomandi íþróttagrein, t.d. sendingum, móttöku og skotum. Metið af kennurum m.a. með tækniprófum.
Líkamleg próf (styrkþjálfun): Nemendur eru prófaðir í nokkrum lykilþáttum líkamslegs forms, s.s. afli, snerpu og hreyfanleika. Unnið er að því að bæta þessa þætti í styrkþjálfunartímum vetrarins.
Bóklegt próf (fagbókleg kennsla): Er úr bóklegum fyrirlestrum vetrarins, ásamt spurningum úr því efni sem kennt er í gegnum styrkþjálfunina. Allt efni sem lagt hefur verið inn í bóklegum tímum fyrir próf sem og efni sem kynnt hefur verið í styrkþjálfun.
Skráning í vellíðunarkönnun: Nemandi fyllir út rafræna könnun vikulega. Hver skil á réttum tíma gilda og mikilvægt er að svörin séu gefin eftir bestu samvisku.