Í áfanganum er kennd smíði. Meðal þess sem tekið er fyrir er útfærsla einstakra byggingarhluta, efnisval, staðsetning á stoðum, bitum og sperrum auk umfjöllunar um þakkvisti og frágang í kringum þakop. Áfanginn er verklegur þar sem nemendur fá þjálfun í almennum verkþáttum húsasmíða eins og meðferð áhalda og tækja, notkun smíðisfestinga, yfirborðsmeðferð, öryggis- og gæðamálum m.m. Áfanginn er á námsbraut í húsasmíði og lögð er áhersla á sjálfstæð og skipulögð vinnubrögð ásamt hæfni til að vinna með öðrum í hóp.
GLUH2GH08, INNK3HH05 og INRE2HH08
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
uppbyggingu berandi timburveggja
uppbyggingu þakvirkis úr timbri
yfirborðsmeðferð smíðaviðar
stífingum á grindarveggjum, staðsetningu stoða og festinga
frágangi á sperrum við sperrufót og mæni
stífingum á sperrum og vexlun í kringum þakop
mismunandi útfærslum á þakköntum og reglum um loftun
algengustu efnum og festingum í þakklæðningar
algengustu útfærslum á loftræstum timburklæðningum á útveggi
uppsetningu á vindvörn og klæðningagrind og reglum um loftun þakvirkis
skörun og neglingu borðaklæðninga
frágangi á borðaklæðningum í kringum veggop og á hornum og brúnum
uppsetningu lagnagrindar, afréttingu og frágang hennar
hvernig á að smíða og setja upp verkpalla og fallvarnir
uppbyggingu og uppsetningu loftræstra útveggjaklæðninga
eiginleikum og notkunarsviði algengra burðar- og klæðningakerfa
mismunandi festingakerfum og afréttingu þeirra
áhöldum og tækjum sem notuð eru við uppsetningu þakvirkja og klæðningar
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
smíða þakvirki með hliðsjón af kröfum um styrkleika, einangrun og eldvarnir
greina algengar útfærslur þakvirkis, bæði fríberandi sperra og kraftsperra
greina helstu aðferðir og efni til að verja tré gegn fúa og veðrun
ganga frá þakgluggum og kvistum
velja áhöld og tæki til uppsetningar á grind og klæðningu
klæða og velja heppileg verkfæri
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
smíða þakvirki úr timbri og klæða með algengustu efnum
smíða þakvirki og klæða í samræmi við kröfur um styrkleika, einangrun og eldvarnir
klæða útveggi með liggjandi og standandi (timbur)útveggjaklæðningu
klæða útveggi með borðaklæðningu í samræmi við kröfur um styrkleika, einangrun og eldvarnir
einangra og klæða loft innanhúss
koma einangrun fyrir og ganga frá rakavarnarlagi
Námsmat er útfært í námsáætlun í samræmi við skólanámskrá