Í þessum áfanga öðlast nemendur þekkingu og færni til að veita skyndihjálp við bráðasjúkdómum eða slysum, geta lagt mat á ástand hins sjúka eða slasaða, geta búið um áverka og búið sjúkling undir flutning til læknis. Nemandinn á að öðlast þekkingu á innihaldi lyfjakistu, þekkja þau lyf sem þar eru, áhrif þeirra og aukaverkanir, geta gefið sýklalyf og verkjalyf og beitt lyfjagjöf í samráði við lækni. Nemandinn þarf einnig að geta búið um minniháttar sár og stöðvað minniháttar blæðingar.
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
vefjabyggingu líkamans og líffærakerfi.
algengustu sjúkdómum sem skyndilega geta gert vart við sig.
réttum viðbrögð við sjúkdómum og slysum um borð.
hvaða ráðstafanir skuli gera áður en hreyft er við þeim sem hefur slasast við fall.
aðferðum við að leggja mat á ástand sjúklings.
réttum aðgerðum og viðbrögðum við slysum, svo sem líkamlegum áverka, losti, eitrunum, ofkælingu og bruna.
þeim þáttum sem huga þarf að þegar búið er um áverka.
gildi sótthreinsunar og nauðsyn þess að þvo sár og skipta um umbúðir.
líkamlegri og andlegri aðhlynningu sjúklinga eftir slys, þ.m.t. þeirra sem bjargað er úr sjávarháska.
réttum viðbrögðum við slysum um borð í skipum þar sem talið er að eiturefni hafi borist úr umbúðum.
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
beita aðferðum við lífgunartilraunir, þar með talin súrefnisgjöf.
beita hjartahnoði og veita aðstoð við hjartastopp.
búa um einföldustu beinbrot til bráðabirgða.
gefa sjúklingi lyf með sprautu í vöðva.
mæla blóðþrýsting.
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
veita skyndihjálp við bráðasjúkdómum eða slysum.
leggja mat á ástand hins sjúka eða slasaða.
búa um áverka og búa sjúkling undir flutning til læknis.
gefa lyf í samráði við lækni.
Lögð er áhersla á fjölbreytt námsmat með leiðsögn. Námsmatið er í höndum kennara viðkomandi áfanga en þarf að fylgja þeim reglum sem kveðið er á um í skólanámskrá.