Nemendur öðlast þekkingu á mismunandi búnaði til kælingar, s.s plötufrysti, lausfrysti, skelískerfi, varmadælukerfi, RSW-kerfi, þrepakælikerfi, lofttemprunarkerfi, kerfi með mörgum kælirýmum og pressum (t.d. frystigeymsla eða skip), gámakerfi, og kerfi sem þurfa að ná mjög lágu hitastigi. Fjallað um heitgasafhrímingu, hegðun lofts í kæligeymslum og í lofttemprunarkerfum (þornun og raka útfellingar), íhluti í kælikerfum og hlutverk þeirra. Ennfremur er fjallað um virkni og stillingu kæliþjappa, þensluloka, þurrkara, sjónglasa, olíuskilja, mótþrýstiloka, segulloka o.fl. Nemendur kynnast pækilkerfum, kolsýrukerfum, ammoníakskerfum og nauðsynlegum öryggisþáttum sem einkenna rekstur kælikerfa. Fjallað er um helstu reglugerðir varðandi kælitækni og umhverfismál. Stefnt er að því að nemendur öðlist færni og þekkingu til að vinna við lekaeftirlit, endurheimt efna, uppsetningu búnaðar, viðhald og þjónustu.
KÆLI2VA05AV
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
helstu tegundum kælibúnaðar og íhlutum helstu tegunda kælikerfa.
tilgangi og framkvæmd heitgasafhrímingar.
stöðlum og reglum um kælimiðla og endurnýtingu þeirra.
rakaútfellingum og lausnum vegna þeirra.
kolsýru sem kælimiðli og búnaði við slík kerfi.
ammoníaki sem kælimiðli og búnaði við slík kerfi.
öryggismálum er varða kælikerfi.
notkun þjónustubóka.
kvörðun mælitækja og halda skrá um kvörðun.
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
mæla og stilla yfirhitun kælikerfis á þenslulokum.
mæla undirkælingu.
útskýra við hvaða aðstæður einstakir kælimiðlar og búnaður hentar best.
kanna þéttleika kerfis með þrýstiprófun.
fylla kerfi af kælimiðli (vökva eða gufu) án þess að neitt af kælimiðlinum tapist.
tengja og aftengja mæla og leiðslur þannig að losun verði sem minnst.
annast eftirlit með leka í kerfinu með því að nota eina af beinu aðferðunum sem um getur í reglugerð (EB) nr. 1516/2007.
setja saman og prófa rafstýringu fyrir lítil kælikerfi.
útskýra grunnstarfsemi þjöppu, m.a. stjórnun á afköstum og smurkerfi.
greina áhættu sem er á kælimiðilsleka eða losun í tengslum við hann.
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
stjórna flóknum kælibúnaði.
stilla sog- og frástreymisloka.
afhríma með heitgasi.
greina form kælimiðilsog skilyrði fyrir áfyllingu til að tryggja að aðferðin og magnið séu rétt.
bregðast rétt við hættum sem geta skapast við rekstur kæli- og frystikerfa.
færa dagsetningar í skrá yfir búnað og fylla út skýrslu um prófanir og eftirlit.
ræsa og slökkva á þjöppu og hafa eftirlit með því að þjappan starfi rétt, m.a. með mælingum á meðan þjappan vinnur.
Lögð er áhersla á fjölbreytt námsmat með leiðsögn. Námsmatið er í höndum kennara viðkomandi áfanga en þarf að fylgja þeim reglum sem kveðið er á um í skólanámskrá.