Í áfanganum fer fram kynning á gerð arkitektateikninga í sinni einföldustu mynd samkvæmt viðurkenndum venjum, stöðlum og reglugerðum um mannvirki og mannvirkjagerð. Fjallað er um uppdrætti, teiknireglur og fylgiskjöl. Unnið er með einfalda aðaluppdrætti, séruppdrætti og einfalda byggingarlýsingu. Megináhersla er lögð á að efla skilning nemenda á rýmum út frá tvívíðum teikningum en einnig vinnuteikningum út frá þrívíddarlíkönum. Fjallað er um hús og húshluta ásamt athugunum og uppmælingum á stærð og hlutföllum og gerð teikninga útfrá þeim niðurstöðum. Fram fer kynning á mismunandi mælikvörðum, númerakerfi, hugtakanotkun hönnunar og notkun ýmissa mælitækja. Fjallað er um mikilvægi lagskiptinga, merkinga, línugerða og upplýsinga sem þurfa að vera á arkitektateikningum. Kynnt eru helstu byggingarefni sem notuð eru í timburhús og húshluta sem heyra undir arkitektateikningar. Fram fer kynning á „BIM“ „Building Innformation Modeling“ Upplýsinga Líkan Bygginga, vistun og miðlun gagna fyrir byggingariðnaðinn og mannvirkjagerð. Gerð er einföld bygginganefndarteikning fyrir lítið timburhús.
THON1TT04AB
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
mismunandi mælikvörðum, númerakerfum, hugtakanotkun og notkun helstu mælitækja.
helstu upplýsingum sem þurfa að koma fram á einföldum arkitektateikningum.
helstu byggingarefnum og samsetningum sem notuð eru við byggingar frístunda- og lítilla einbýlishúsa.
lagskiptingum, merkingum og mismunandi línugerðum arkitektateikninga.
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
temja sér vönduð vinnubrögð.
annast gerð og frágang einfaldra tví- og þrívíddarteikninga á grundvelli textalýsinga, skoðunar og uppmælinga á rýmum og húshlutum.
annast gerð og frágang einfaldra arkitektateikninga með tilliti til viðurkenndra venja, staðla og reglugerða um mannvirki og mannvirkjagerð auk teiknireglna.
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
teikna grunnmynd, þversnið og útlit.
setja upp grunnmynd, þversnið og útlit á grundvelli þrívíddarlíkans.
útbúa einfalda bygginganefndarteikningu fyrir minni byggingar.
kynna ákveðið viðfangsefni fyrir samnemendum og kennara.
Símat sem byggir á verkefnum, skyndipróf og/eða lokapróf.