Áfanginn er verklegur og ætlaður nemendum á þriðja námsári. Námið fer fram á almennum vinnustöðum, vernduðum vinnustað eða í skóla. Við val á vinnustað er tekið mið af óskum nemenda að höfðu samráði við foreldra eða forráðamenn. Vinnan er skipulögð í samráði við vinnuveitendur og hefur umsjónarkennari eftirlit með vinnustaðanáminu. Lögð er áhersla á stundvísi, sjálfstæði, samviskusemi, vandvirkni, ábyrgð og góð samskipti við samstarfsmenn. Einnig er áhersla lögð á að nemendur þekki og fari eftir vinnureglum og helstu öryggisatriðum á vinnustað.
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
- hvað það er að vera virkur og ábyrgur borgari í lýðræðislegu samfélagi - því sem nýtist til undirbúnings fyrir frekara nám - hvernig nýta beri lærða færni með því að ræða hana við aðra nemendur og bera saman við annað sem honum finnst skipta máli, t.d. áhugamál - hvernig hann miðlar þekkingu sinni með fjölbreyttum og skapandi hætti í samræðu við aðra nemendur með margskonar hætti
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
- tjá sig á skýran, ábyrgan og skapandi hátt og vera verklega sjálfbjarga í daglegu lífi - beita skapandi hugsun í öllu starfi , vinna á sjálfstæðan, ábyrgan og skapandi hátt undir leiðsögn - hafa aflað sér þjálfunar í þeim aðferðum og verklagi sem nám á vinnustað hans krefst - greina á milli mismunandi aðferða og milli mismunandi þátta í skipulagi verkferla
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
- hafa skýra sjálfsmynd og gera sér grein fyrir hvernig hann getur hagnýtt sterkar hliðar sínar á skapandi hátt - eiga jákvæð og uppbyggileg samskipti og samstarf við annað fólk - hagnýta sér þá hæfni sem hann hefur aflað sér hvort heldur sem er í frekara námi eða í daglegu lífi - sýna fram á almenna siðvitund sína og umburðarlyndi - hafa skilning á eigin getu - miðla þekkingu sinni og leikni á hagnýtan máta og sýna þannig sköpunarmátt sinn, frumkvæði og hæfni til að tjá hugmyndir og skoðanir - meta eigið vinnuframlag
Námsmat er tvíþætt. Annars vegar er 90% símat sem byggir á frammistöðu nemandans á starfsnámsstað. Tekið er mið af eftirfarandi þáttum: Samskiptum, frumkvæði, sjálfstæði, vinnusemi og vandvirkni. Matið er í höndum umsjónarmanns nemandans á starfsnámsstaðnum.
Hins vegar er 10% verkefni og/eða dagbók.