Gert er ráð fyrir að nemendur sem hefja nám í þessum áfanga hafi fullt vald á bókhaldshringrásinni, geti hafið bókhald og lokað því samkvæmt reglum tvíhliða bókhalds. Þessi kunnátta er dýpkuð verulega meðal annars með erfiðari færslum. Farið yfir bókun á helstu reikningum fyrirtækja; notkun fyrningareikninga við afskriftir eigna, bókun hluta- og skuldabréfa og notkun affallareiknings. Einnig er farið yfir bókanir sem varða innflutning; tollafgreiðslu, greiðslu virðisaukaskatts í tolli, kostnað og fyrirkomulag við geymslu á vörum í tollvörugeymslu. Uppgjörsfærslum er haldið áfram í gegnum reikningsjöfnuð.
BÓKF2BF05
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
helstu innflutningsskjölum vegna tollafgreiðslu og greiðslu virðisaukaskatts í tolli
lögum um toll og virðisaukaskatt af innflutningi
færslum vegna innflutnings á vöru
gengisbreytingum vegna erlendra viðskiptaskulda og/eða viðskiptakrafna
kostnaði og fyrirkomulagi við geymslu á vöru í tollvörugeymslu
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
reikna og bóka verðbætur, vexti og afborganir af óverðtryggðum og verðtryggðum skuldabréfum
reikna og bóka færslur sem tengjast hlutabréfaeign, arði, gengisbreytingum, jöfnunarhlutabréfum o.s.frv.
bóka færslur sem varða stofnun og slit félaga
bóka færslur sem varða breytingu á réttarformi fyrirtækja, samruna og fjárhagslega endurskipulagningu þeirra
meðhöndla mismunandi virðisaukaskattsþrep í bókhaldi
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
hefja bókhald með hliðsjón af fyrirliggjandi efnahagsreikningi eða stofnun fyrirtækis
leysa af hendi lagfæringar í bókhaldi með hliðsjón af athugasemdum
setja upp einfaldan rekstrar- og efnahagsreikning í lok reikningstímabils að teknu tilliti til athugasemda og lokafærslna
færa tvíhliða bókhald fyrir lítinn og einfaldan atvinnurekstur