Í áfanganum kynnast nemendur því hvernig leggja á rörakerfi samkvæmt ísómetrískum teikningum. Jafnframt
læra þeir að teikna og útfæra smíða- og lagnateikningar fyrir einstök verkefni. Þeir skulu þekkja efnisstaðla um
rör, suðufittings, flangsa, bolta og pakkningarefni og geta á eigin spýtur valið smíðaefni til skilgreindra verka.
Ennfremur þjálfast þeir í að skipuleggja vinnu sína m.t.t. krafna um gæði, öryggi og umhverfi.
MLSU2VB03BV
SMÍÐ1VB04BV
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
grundvallaratriðum einlínu lagnateikninga og samkvarða (ísómetrískra) teikninga.
efnisstöðlum um rör, suðufittings, flangsa, bolta og pakkningarefni.
tækjum og handverkfærum sem notuð eru við lagningu rörakerfa.
áhrifum þenslu í rörakerfum og aðgerðum til að mæta henni.
forsendum fyrir vali lagnaefnis og suðugerða.
helstu reglugerðum um röralagnir og þrýstihylki og aðferðum við þrýstiprófanir á rörakerfum og öryggisráðstafanir við slíkar prófanir.
mismunandi gerðum festinga,upphengja og einangrunar fyrir rör og tækjabúnað.
öryggismálum vegna flutninga og vinnu við uppsetningar á vél og tækjabúnaði og öryggis- og hlífðarbúnaði.
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
teikna og útfæra smíða- og lagnateikningar fyrir einstök verkefni.
leggja rörakerfi samkvæmt samkvarða (ísómetrískum) teikningum.
leggja rörakerfi samkvæmt einlínumyndum.
teikna einfaldar einlínu lagnateikningar og samkvarða (ísómetrískar) teikningar, málsetja þær, velja efni og leggja rörakerfi samkvæmt þeim.
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
áætla efnismagn eftir teikningu.
sníða til rör og setja þau saman fyrir suðu.
ganga frá flöngsum á röralögnum á fullnægjandi hátt.
velja og smíða viðeigandi festingar, upphengjur og annan búnað sem þarf til að tryggja örugga uppsetningu lagna- og vélbúnaðar.
þrýstiprófa einfalt lagnakerfi samkvæmt reglum Vinnueftirlits Ríkisins.
Lögð er áhersla á fjölbreytt námsmat með leiðsögn. Námsmatið er í höndum kennara viðkomandi áfanga en þarf
að fylgja þeim reglum sem kveðið er á um í skólanámskrá.