Í þessum áfanga kynnast nemendur samsetningu einkatölvu og aðferðum við bilanagreiningu. Lögð er áhersla á virkni undirstöðueininga einkatölvu, s.s. örgjörva, rásasett, tengiraufar, minni, einstakar stýringar á móðurborði, hlutverk BIOS, diskastýringar, inn- og úttakstengi, netkort ásamt stillingum fyrir internetið. Helstu einingar staðarnets og víðnets eru kynntar. Tölva er sett saman frá grunni og gengið frá uppsetningu á algengu stýrikerfi og notendahugbúnaði. Tölvan er í lokin tengd á staðarnet skólans og stillt fyrir internetið. Áhersla er lögð á að nemendur fái innsýn í samvirkni helstu jaðartækja sem notuð eru með einkatölvum. Þá er fjallað um stöðurafmagn og meðferð rafíhluta.
Í þessum áfanga kynnast nemendur tölvunetkerfum. Farið er í uppbyggingu og virkni heimilis netkerfa. Nauðsynlegir íhlutir skoðaðir og hvernig einfaldur netbúnaður vinnur saman.
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
helstu byggingarhlutum tölvu og hlutverki þeirra
helstu stýrikerfum
algengum notendaforritum
helstu einingum í einföldu netkerfi
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
setja saman tölvu úr byggingarhlutum sínum
forsníða harðan disk
setja upp stýrikerfi á tölvu
setja upp einfalt netkerfi
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
bera kennsl á helstu bilanaeinkenni í tölvu
leggja mat á gildi hinna ýmsu hugtaka við mat á afkastagetu tölvu
bera kennsl á helstu bilanaeinkenni í netkerfi
leggja mat á afkastagetu í einföldu netkerfi
Lögð er áhersla á fjölbreytt námsmat með leiðsögn. Námsmatið er í höndum kennara viðkomandi áfanga en þarf að fylgja þeim reglum sem kveðið er á um í skólanámskrá VMA.