Í áfanganum er umhverfisfræði kynnt sem vísindagrein og fjallað um mengun, veðurfarsbreytingar, dýr í útrýmingarhættu og auðlindaþurrð. Kynnt verða hugtökin ,,burðargeta“ og ,,sjálfbærni“, og hugtökin tengd fjölgun mannkyns og aðstæðum á jörðinni. Enn fremur verður fjallað um sjálfbæra auðlindanýtingu. Í áfanganum er leitast við að auka hæfni nemenda í að túlka gögn sem tengjast umhverfismálum á gagnrýninn hátt. Gert er ráð fyrir að nemendur vinni með gögn sem tengjast umhverfismálum. Fjallað verður um muninn á hagrænum og fagurfræðilegum verðmætum.
UMHV1SU05
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
fjölbreyttum leiðum einstaklingsins til vistvænna lifnaðarhátta
hugtökunum burðargeta (e. carrying capacity) og sjálfbærni (e. sustainability) og hvernig þessi hugtök tengjast nýtingu náttúruauðlinda og fjölgun mannkyns
hlýnun jarðar, þ.e. orsökum, afleiðingum og ábyrgð einstaklings
muninum á hagfræðilegu og fagurfræðilegu verðmætamati í tengslum við nýtingu náttúruauðlinda og náttúruvernd
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
endurnýta endurnýtanlegan efnivið og endurvinna sorp í þeim tilgangi að minnka sorp sem þarf að farga
meta áhrif hversdagslegra athafna á umhverfið, m.a. með því að nýta sér hugtakið ,,vistspor“ (e. ecological footprint)
fjalla um umhverfismál út frá hagfræðilegum og fagurfræðilegum sjónarmiðum
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
minnka ágang á náttúrurauðlindir með vistvænni lifnaðarháttum en áður
minnka magn urðaðs sorps með því að endurnýta og endurvinna það sem hægt er
túlka á gagnrýninn hátt upplýsingar sem tengjast umhverfismálum
vera virkur þátttakandi í umræðu um umhverfismál
Námsmat byggir á fjölbreyttum verkefnum og prófum.