Markmið áfangans er að nemendur kynnist viðfangsefnum örverufræðinnar (bakteríur, einfruma sveppir, frumdýr og veirur). Skoðuð er staða greinanna innan náttúrufræðinnar. Farið er yfir flokkun örvera og byggingu og starfsemi nokkurra örvera úr helstu flokkunum. Nemendur kynnast helstu ræktunar- og greiningaraðferðum sem beitt er við örverufræði rannsóknir. Mikilvægi örvera í náttúrunni er kynnt svo og notagildi í iðnaði. Fjallað er um skaðsemi örvera s.s. skemmdir á matvælum og ýmsum efnum svo og sjúkdóma sem þær valda. Nemendum eru kynntar helstu varnir gegn skaðsemi örvera s.s. sótthreinsanir, dauðhreinsanir, sýklalyf og mótefni. Verklegar æfingar og vettvangsferðir eru þáttur í náminu.
Lífeðlisfræði / LÍFF2LN05
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
- einkennum og byggingu dreifkjörnunga og frumvera - grunnatriðum í flokkunarfræði örvera - smitleiðum og sjúkdómum af völdum örvera - helstu aðferðum við sjúkdómavarnir og sótthreinsun - stöðu veira í lífheiminum og samskiptum þeirra við hýsla - nýtingu örvera og rannsóknum á þeim
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
- taka örverusýni og búa þau til ræktunar - vinna með örverur á öruggan hátt - skrá niðurstöður athugana og setja fram í skýrslum - beita grunnhugtökum örverufræðinnar á skilmerkilegan hátt og í rökrænu samhengi - þekkja helstu örverutengda sjúkdóma og viðbrögð við þeim - tjá sig um örverufræðileg málefni á skýran og ábyrgan hátt
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
- leggja mat á upplýsingar sem tengjast örverufræðilegum viðfangsefnum á gagnrýninn hátt - taka þátt í umræðum um örverufræðileg málefni daglegs lífs á ábyrgan og sjálfstæðan hátt - taka rökstudda afstöðu í álitamálum er varða örverur og notkun á þeim í líftækni - tengja örverufræðina við daglegt líf og umhverfi og sjá notagildi hennar - afla sér frekari þekkingar á örverufræðilegum viðfangsefnum
Námsmat er útfært í kennsluáætlun í samræmi við skólanámskrá.