Í áfanganum er unnið með form og hlutföll. Nemendur kynnast ýmsum aðferðum við myndbyggingu og kanna ólík sjónræn áhrif þeirra. Einkum er unnið með frumform og óhlutbundin form og munurinn á þeim kannaður frá ýmsum sjónarhornum. Fjallað er um ýmsar andstæður s.s. stórt/lítið, hvasst/mjúkt, jafnvægi/ójafnvægi, létt/þungt, samstætt/andstætt. Nemendur velta fyrir sér stærð og hlutföllum, endurtekningu, takti og mynstri. Verkefni í myndbyggingu eru einnig tengd dæmum úr listasögu og umhverfi samtímans. Markvisst er unnið með skissubók.
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
frumformunum, heitum þeirra og lögun
ýmsum andstæðum hugtökum á borð við stórt/lítið, hvasst/mjúkt
fjölbreyttum áhöldum og efni sem nota má í tví- og þrívíðri vinnu
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
teikna frumform eftir fyrirmælum
vinna með ólík verkfæri og fjölbreytt efni, s.s. blek, túss, pensla og penna
vinna óhlutbundið með form, línu, flöt, áferð, mynstur o.fl.
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
vinna með byggingu myndflatar á frjóan og persónulegan hátt
skapa þrívíð verk úr fjölbreyttu efni á persónulegan hátt