Í þessum áfanga kynnast nemendur grunnatriðum í rekstrarhagfræði. Nemendur öðlast skilning á samhengi tekna og kostnaðar og læra að þekkja helstu kennitölur og hugtök í rekstri fyrirtækja. Nemendur öðlast þekkingu og færni við að greina tekjumyndun og kostnaðarþætti í rekstri útgerðarfyrirtækja, geta byggt upp einfalt verkbókhald, og greiðsluáætlanir með því að leggja mat á einstaka kostnaðar- og tekjuliði í rekstraráætlun, verða færir um að gera framlegðarútreikninga og skilja undirstöðuatriði markaðsverðmyndunar
sjávarafurða. Nemendur læra að gera rekstraráætlun fyrir skip, kostnaðaráætlanir við rekstur skipa og viðhald.
Að hafa lokið C réttindum vélstjórnar
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
grunnþáttum rekstrarhagfræðinnar og hugtökum sem notuð eru í henni.
samhengi milli tekna og kostnaðar og mun á beinum og óbeinum kostnaði.
helstu kostnaðar- og tekjuliðum við útgerð skipa og aðferðum við að leggja mat á þessa liði.
helstu kennitölum í rekstri fyrirtækja og þeim upplýsingum sem draga má af þeim.
forsendum um frjálsan markað, ófullkomna samkeppni og einokun.
helstu þáttum og uppbyggingu rekstrarbókhalds, verkbókhalds og kostnaðareftirlits.
reglubundnum kostnaði við viðhald skipa.
kostnaði við slipptöku skipa (slippar og dokkur).
uppbyggingu útboða og tilboða við smíði, breytingar og viðhald skipa.
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
greina tekjumyndun og kostnaðarþætti.
gera framlegðarútreikninga.
byggja upp einfalt verkbókhald.
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
gera rekstraráætlun og greiðsluáætlanir.
greina kostnað við slipptöku skipa (slippar og dokkur).
lesa úr útboðsgögnum og tilboðum við smíði, breytingar og viðhald skipa.
Lögð er áhersla á fjölbreytt námsmat með leiðsögn. Námsmatið er í höndum kennara viðkomandi áfanga en þarf að fylgja þeim reglum sem kveðið er á um í skólanámskrá.