Nemendur kynnast og verða færir um að beita rennibekk og fræsivél og öðlast fullkomið vald á öryggismálum og umhirðu spóntökuvéla. Þeir öðlast nægilega færni til að leysa einföld verkefni í rennibekk innan málvika og þjálfast í að finna réttar deilingar í deildir og einfaldan vinnslutíma og finna færslur samkvæmt töflum. Nemendur læra og þjálfast í að gera verkáætlanir.
Kenna þarf áfangann samkvæmt STCW alþjóðasamþykktinni með viðeigandi vottun. Nám í áfanganum (og undanfarandi áföngum ef við á) skal samsvara þeim kröfum sem gerðar eru í tilteknum hlutum samþykktarinnar eins og nánar er tilgreint í tilvísanalista sem fylgir námsbrautar-lýsingunni.
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
mismunandi hlutum rennibekkjarins og tilgangi þeirra.
stillimöguleikum rennibekkjarins fyrir mismunandi verk.
tilgangi horna skurðarverkfæra.
helstu uppspenniaðferðum í rennibekk.
vinnslu með mismunandi gerðum stáls, t.d. hrað- og harðstáli.
fín- og grófrennsli.
notkunarmöguleikum og breytingu kastmælis.
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
reikna út snúningshraða/skurðarhraða fyrir mismunandi vinnsluefni samkvæmt töflum.
meta og velja rétt verkfæri við lausn verka.
skilgreina heiti horna skurðarverkfæra og stærðir þeirra fyrir mismunandi vinnsluefni.
nota algengan uppspennibúnað.
slípa hnífstál og skrúfuskurðarstál.
skrúfuskera í rennibekk með tappa og bakka.
skrúfuskera öxul með skrúfuskurðarstáli.
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
leysa einföld verkefni í rennibekk innan 0,1 mm málvika.
hafa fullkomið vald á öryggismálum og umhirðu spóntökuvél.
gera einfaldar verkáætlanir.
nota deili við kantfræsingu.
Lögð er áhersla á fjölbreytt námsmat með leiðsögn. Námsmatið er í höndum kennara viðkomandi áfanga en þarf að fylgja þeim reglum sem kveðið er á um í skólanámskrá.