Nemendur öðlast þekkingu á helstu véla- og lagnakerfum um borð í skipum, uppbyggingu þeirra, hlutverki, notkun og viðhaldi og þjálfast í notkun véla og vélakerfa, einnig í að ræsa ljósavélar og fasa á net, bæði í verklegri þjálfun og í vélhermi. Að auki kynnast þeir uppbyggingu skutpípu, skiptiskrúfu og niðurfærslugíra, ásamt helstu dælugerðum. Farið er yfir eldsneytisbúnað brunavéla og mismunandi tegundir eldsneytis, eiginleika og hreinsun fyrir notkun. Einnig öðlast nemendur þekkingu og færni í rekstri og viðhaldi
kælivatns- og kælisjókerfa. Áhersla er lögð á umhirðu búnaðar í vélarúmi, bilanagreiningu og viðgerðir ásamt helstu öryggisatriðum varðandi eldvarnir skipa. Farið er yfir öryggismál, umgengni um vélar og frágang vélarúms og verkstæðis ásamt hættum sem stafa af vélum og vélbúnaði.
Kenna þarf áfangann samkvæmt STCW alþjóðasamþykktinni með viðeigandi vottun. Nám í áfanganum (og undanfarandi áföngum ef við á) skal samsvara þeim kröfum sem gerðar eru í tilteknum hlutum samþykktarinnar eins og nánar er tilgreint í tilvísanalista sem fylgir námsbrautarlýsingunni.
VÉLS1VA04AV
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
helstu öryggisatriðum varðandi rekstur og viðhald smærri skipa.
eldsneytisbúnaði skipavéla.
loftaðfærslubúnaði miðað við algengustu eldsneytistegundir.
helstu dælugerðum og kostum þeirra og annmörkum.
algengum aðferðum við aflyfirfærslu frá vél að skrúfu.
samspili aðalvéla og hjálparvéla.
hinum ýmsu kerfum í skipum, hlutverki, uppbyggingu og notkun þeirra og viðhaldi.
algengum gerðum af þrýstivökvakerfum og vökvastýrisvélum.
uppbyggingu skutpípu og þéttingum hennar við skrúfuás og hlutverki þrýstilegu.
uppbyggingu skiptiskrúfunnar og uppbyggingu niðurfærslugíra með og án úttaka.
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
nota skjámyndakerfi við stjórnun vélarúms (vélarúmshermir).
rekja og teikna upp helstu kerfi um borð í smærri skipum (s.s. kæli-, lensi- og neysluvatnskerfi).
lesa úr einlínu- og þversniðsmyndum.
ganga um vélar og verkstæði með tilliti til hreinlætis og öryggis.
ræsa og keyra skipsvélar og annan vélbúnað í smærri skipum.
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
bilanagreina vélar á skipulagðan hátt.
annast daglegan rekstur lítilla vélarúma.
sinna fyrirbyggjandi viðhaldi í litlu vélarúmi.
útskýra mismunandi gerðir og uppbyggingu tengsla (kúplinga), gíra og skipsskrúfa.
stunda vinnu í vélarúmi m.t.t. umgengni og öryggismála og krafna um vaktstöðu.
Lögð er áhersla á fjölbreytt námsmat með leiðsögn. Námsmatið er í höndum kennara viðkomandi áfanga en þarf að fylgja þeim reglum sem kveðið er á um í skólanámskrá.