Áfanginn fjallar um fræðileg grunnatriði rafmagns sem undirstöðu í umgengni við rafmagnsbúnað í skipum og
um uppbyggingu og virkni vélbúnaðar í skipum. Fjallað er um díselvélar, gufutúrbínu, gastúrbínu, skrúfu- og
stjórnbúnað, auk stoðkerfa eins og katla, varmaskipta, ferskvatnskerfi, dælubúnað, stýrisbúnað, rafala, kæli- og
lofttemprunarkerfi, stöðuleikabúnað, skólpkerfi, skiljur, búnað á dekki og vökvakerfi. Umfjöllun miðast við kröfur
til skipstjórnarmanna á réttindastiginu.
Í áfanganum eru einnig tekin fyrir þau atriði sem gefa réttindi til vélstjórnarskírteinis á skipum sem eru 15 metrar
að skráningarlengd og styttri og með vélarafl minna en 750 kW. Þannig öðlast nemendur þekkingu á helstu véla-,
gír-, kæli-, rafmagns- og lagnakerfum sem eru um borð í minni skipum, uppbyggingu þeirra, hlutverki, notkun og
viðhaldi. Þeir þjálfast í notkun þessara kerfa, ræsingu þeirra og stjórnun, eftirliti og umhirðu. Nemendur öðlast
þekkingu á áhrifum vetrargeymslu, læra um öryggisbúnað og varúðarráðstafanir, og kynntar eru þær reglur og
reglugerðir sem gilda um vélakerfi smábáta.
Kenna þarf áfangann samkvæmt STCW alþjóðasamþykktinni með viðeigandi vottun. Nám í áfanganum (og
undanfarandi áföngum ef við á) skal samsvara þeim kröfum sem gerðar eru í tilteknum hlutum samþykktarinnar
eins og nánar er tilgreint í tilvísanalista sem fylgir námsbrautarlýsingunni.
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
rafmagnsfræðum og segulmagni ásamt grundvallarvinnslumáta rafmagns og vélbúnaðar eins og krafist er fyrir skipstjórnarmenn á réttindastiginu.
vinnumáta véla, þ.e. uppbyggingu dísilvéla og einstökum vélahlutum.
afgaskerfi véla, þ.e. virkni afgasblásara, skolloftskæla og skermun á heitum afgasgreinum.
eldsneytiskerfi véla, þ.e. eldsneytisgeymum, vatnsskilju, síum, dælum, eldsneytislokum og lögnum, lofttæmingu.
smurkerfi, þ.e. vali og umhirðu á smurolíu og síubúnaði, smurolíudælum, smurolíukælum og ferli smurolíu.
helstu gerðum kælikerfa, tæringavörnum, vatnslás og kælivatnshitastigi, hlutverki varnarskauta í kælikerfum, kælivatnsdælum, lokum og efni í lokum.
keyrslu véla, þ.e. ástimpluðum stærðum á vélum, varmayfirlestun véla, eyðslukúrfum, skrúfulínuritum og mælum sem fylgjast þarf með þegar vélar eru keyrðar.
helstu gerðum gíra (niðurfærslugírum, hældrifum, skiptigírum), skrúfa (föstum / skipti), stýrisvéla/stýristjakka, stýrisblaði og frágangi þess.
uppbyggingu, tengingum og frágangi rafkerfa (rafgeymum, startara, glóðakertum, riðspennukerfum 230V), ásamt varúðarráðstöfunum og helstu bilunum.
öryggisbúnaði, s.s. slökkvikerfum, austurkerfum (síum, dælum, lokum) og vökvageymum.
algengum rafdrifnum veiðarfærum (s.s. handfærarúllum), einlínumyndum og tengingum.
áhrifum vetrargeymslu, þekki þörf á frágangi vélar og skrokks, frostþoli vökva.
viðhaldi, varahlutum og verkfærum, reglubundinni umhirðu, gátlistum fyrir viðhald, algengum bilunum og viðbrögðum við þeim (s.s. varðandi eldsneytiskerfi, gíra, skrúfur, stýrisvélar og rafkerfi).
reglugerðum varðandi vélakerfi smábáta, s.s. um rafkerfi, vélakerfi, um mengun sjávar, um skoðanir og lögbundið eftirlit, og Norðurlandareglum um öryggis- og björgunarbúnað.
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
lofttæma eldsneytiskerfi.
velja smurolíu og smyrja vél og gír.
fylgjast með mælum á meðan á vél er keyrð.
beita öryggis‐ og neyðarkerfum, s.s. slökkvikerfi og austurkerfi.
umgangast rafkerfi með varúð.
bilanaleita og gera við einfaldar bilanir í vél, gír, skrúfu og rafkerfi.
beita helstu gerðum handverkfæra við viðhald og viðgerðir.
ganga frá vél og skrokk til vetrargeymslu.
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
sinna hlutverki sínu sem skipstjórnarmaður á réttindastiginu á fullnægjandi hátt m.t.t. þekkingar á rafbúnaði, vélum og stoðkerfum skipa.
annast daglegan rekstur lítilla vélarúma og stunda vinnu í vélarúmi m.t.t. umgengni, öryggismála og krafna um vaktstöðu.
sinna fyrirbyggjandi viðhaldi í litlu vélarúmi, hirða um rafgeyma og vélbúnað á viðeigandi hátt.
bilanagreina einfaldar bilanir í vél, gír, skrúfu og rafkerfi á skipulagðan hátt, geta nýtt teikningar til þess.
bregðast rétt við algengum bilunum í vél, gír, skrúfu og rafkerfi skips.
Lögð er áhersla á fjölbreytt námsmat með leiðsögn. Námsmatið er í höndum kennara viðkomandi áfanga en þarf
að fylgja þeim reglum sem kveðið er á um í skólanámskrá.