Í áfanganum er nemendum kynnt eldri hitakerfi, tæki og lagnaefni s.s. geislahitun, gólflistahitun, yfirhitun, kola- og olíukyntir katlar, olíubrennarar, múffuð pottrör blý- eða brennisteinsþétt, helstu lagnaefni til endurlagna í byggingum og val á lagnaleiðum. Eldri lagnir verða skoðaðar og metnar, eldri steinröralagnir í grunnum skoðaðar myndrænt, kynntar aðferðir við að klæða eldri frárennslislagnir að innan. Fjallað er um öryggismál og hollustuvernd, einkum hugsanlegar hættur við rif eldri lagnakerfa og endurlagnir, m.a. leynda smithættu og hættu af asbesti. Nemendur læra um brunavarnir við endurlagnir, fyrirbyggjandi viðhald lagnakerfa og forvinnslu lagnahluta. Sérstök áhersla er lögð á framkomu iðnaðarmannsins og umgengni þegar unnið er að endurlögnum.