MeMa er nýsköpunarhraðall þar sem þróaðar eru snjallar hugmyndir og þeim komið í verk. MeMa er stytting á MenntaMaskína en í hraðlinum fá nemendur tækifæri á því að nýta hugvit sitt til að leita lausna í þverfaglegu samstarfi við sérfræðinga og hagsmuna aðila.
MeMa byggir á verkefnalotum sem líkja eftir hönnunar- og nýsköpunar aðferðum alþjóðlegra tæknifyrirtækja sem leggja mikla áherslu á hönnun og fljótvirkra frumgerðarsmíði.
Í MeMa vinna nemendur að umfangsmiklu lokaverkefni sem spannar alla önnina. Vinnan að verkefninu fer fram í gegnum hönnunar- og tæknispretti sem byggja á teymum sem vinna að því búa til virka frumgerð að nýsköpunarhugmynd. Maskína hefst í ágúst og lýkur með verðlaunaafhendingu í nóvember. Í Maskínu er lögð áhersla á vísindi, hagnýtingu þekkingar, samvinnu, hönnun, tilraunir og prófanir. Fab Lab Reykjavíkur leiðir verkefnið og hefur það vaxið í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti með stuðningi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Reykjavíkurborgar. Með þáttöku í MeMa gefst nemendum og kennurum einstakt tækifæri til að kynnast rannsóknum og þróun nýsköpunarhugmynda með hjálp sérfræðinga Fab Lab Reykjavíkur.
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
nýsköpun; uppbyggingu, aðferðum, hugtökum
teymisvinnu í rannsóknum og þróun
verkefnastjórnun nýsköpunar
aðferðum Hönnunarspretta (Design sprint)
stafrænni hönnun og frumgerðarsmíð
notendaprófunum á lausnum
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
skipuleggja verkferlið með ábyrgum hætti í samvinnu við sitt teymi
sýna frumkvæði og vera skapandi í mótun hugmynda sinna
tjá sig á skýran, ábyrgan, gagnrýninn og skapandi hátt um eigin hugmyndir, verkferli og niðurstöður
vinna með sameiginlegt markmið hópsins að leiðarljósi
beita af öryggi mismunandi miðlunarleiðum og geta valið viðeigandi leið með tillit til verkefna og aðstæðna hverju sinni
velja réttar aðferðir til að útfæra hugmyndir sínar hvað varðar, tækni, verklag og skapandi aðferðir sem endurspegla hugmyndavinnu tengda nýsköpun og inntaki verkefna
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
geta miðlað þekkingu sinni á fjölbreytilegan hátt svo sem munnlega,skriflega, verklega og með nýmiðlum
beita þeirri sérhæfðu verkkunnáttu sem hann hefur áunnið sér í Maskínu
þróa hugmyndir í teymi og sýna áræðni við útfærslu þeirra og túlkun
vinna verk af innsæi og næmi en með rannsakandi aðferðum
gera sér grein fyrir siðferðilegu og samfélagslegu hlutverki nýsköpunar
getað fjallað um nýsköpun út frá þróunarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna
vera fær um að greina og meta eigin verk og annarra af þekkingu og víðsýni
Námsmat fer fram með leiðsagnarmati. Heildareinkunn verkefna gildir til lokaeinkunnar
Teymi miðla vinnu sinni í gegnum nýmiðla og eru verkefni þeirra metin jafnt og þétt yfir önnina. Áhersla er lögð á uppbyggilegar umsagnir verkefna og samræður sem eiga að gagnast nemendum til áframhaldandi þróunar á verkum sínum. Við einkunnagjöf er unnið út frá eftirfarandi þáttum:
● Þekking er metin út frá umræðu og þátttöku á hönnunarsprettum og miðlun á myndefni.
● Leikni svo sem tækni, verklag, hugmyndaferli, skapandi nálgun og miðlun er metin út frá mótun og vinnu verkefna, svo og við vinnu að frumgerð og prófun frumgerðar.
● Hæfnin er metin út frá hugmynda- og vinnuferli verkefna, hvernig nemandinn nær að þróa og forma verkefnið og fylgja hugmynd sinni eftir. Metin er hæfni nemanda við að beita viðeigandi verkaðferðum ,tækni og efnivið við úrlausn verkefna.