Áfanginn er að mestu verklegur þar sem áhersla er lögð á styrk, hraða og snerpu. Fjallað er um grundvallaratriði í styrktarþjálfun og nemendum kynntar fjölbreyttar aðferðir til að þjálfa styrk, hraða og snerpu, auk þess sem kynntar eru mismunandi aðferðir til mælinga á þessum þáttum. Einnig er farið yfir mikilvægi réttrar líkamsbeitingar í allri þjálfun. Nemendur þurfa að taka þátt í skipulagðri þrekþjálfun hjá viðurkenndu íþróttafélagi eða sérhæfðum þjálfara að minnsta kosti þrisvar sinnum í viku.
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
Helstu hugtökum sem tengjast styrktarþjálfun s.s. hámarksstyrk, úthaldsstyrk, hreyfivinnu og kyrrstöðuvinnu
Grunntækni í styrktarþjálfun
Þjálfunarálagi og mikilvægi fjölbreyttra þjálfunaraðferða
Mikilvægi réttrar líkamsbeitingar
Sambandi styrktar-, hraða og snerpuþjálfunar
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
Framkvæma fjölbreyttar æfingar með eigin líkamsþyngd, lausum lóðum og tækjum sem styrkja helstu vöðva líkamans
Útbúa eigin æfingaáætlun sem miðar að því að byggja upp vöðvastyrk
Framkvæma próf til að meta styrk, hraða og snerpu
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
Vinna eftir eigin styrktarþjálfunaráætlun
Beita líkamanum á réttan hátt við styrktaræfingar
Meta, bæta og viðhalda eigin styrk
Nýta þá möguleika til hreyfingar sem eru í boði í nánasta umhverfi
Í áfanganum er viðhaft leiðsagnarmat með símati alla önnina. Öll verkefni gilda til einkunnar. Nemendur þurfa að uppfylla skilyrði um mætingu og virkni í tímum. Áfanginn er metinn út frá verkefnaskilum, mætingu, virkni, færni, áhuga og sjálfstæði.