Fjallað er um barna- og unglingabókmenntir í víðum skilningi: sögur, ævintýri, ljóð, teiknimyndir og myndabækur auk efnis fyrir sjónvarp og leikhús. Nemendur kynnast einkennum, formi, útbreiðslu, vinsældum og kröfum sem gerðar eru til barna- og unglingabókmennta. Gert er ráð fyrir að nemendur lesi mismunandi bókmenntatexta og kynni sér fræðilega umfjöllun um barnabókmenntir. Í áfanganum er viðhöfð fjölbreytt verkefnavinna, verkleg, munnleg og skrifleg. Farið er fram á sjálfstæð, skapandi og vönduð vinnubrögð.
Á þriðja þrepi eru auknar kröfur gerðar til sjálfstæðis nemenda í námi og hæfileika þeirra til að koma þekkingu sinni skýrt og greinilega frá sér í ræðu sem og riti. Ætlast er til að nemendur sýni frumkvæði og eigi auðvelt með að afla sér upplýsinga um tiltekin viðfangsefni tengd áfanganum sem og að þeir læri að nýta sér þau hjálpartæki sem þeir þurfa til ritunar og skilnings.
10. einingar á 2. þrepi í íslensku
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
mismunandi frásagnaraðferðum og framsetningu í barna- og unglingabókmenntum
mál- og menningarheimi barna og ungmenna
mikilvægi læsis fyrir börn og unglinga og að lesið sé fyrir þau
mismunandi tegundum barnabóka
ritgerðasmíð og heimildavinnu
barnabókmenntum í sögulegu ljósi
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
draga saman og nýta upplýsingar úr ýmiss konar heimildum og tengja við eigin skoðanir
beita gagnrýninni hugsun við vinnslu verkefna
lesa sér til gagns bókmenntaverk ásamt fræðitextum um barna- og unglingabókmenntir og greina mismunandi sjónarmið
þekkja einkenni vel skrifaðra barnabókmennta
nota viðeigandi hjálpargögn við frágang ritsmíða
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
vinna skapandi og greinandi verkefni í tengslum við barna- og unglingabókmenntir
taka þátt í málefnalegum umræðum, byggja upp skýra röksemdarfærslu, tjá afstöðu og efasemdir um efni og komast að niðurstöðu
túlka texta barna- og unglingabókmennta og greina merkingu undir yfirborði textans (undirtexti)
meta með gagnrýnum huga uppeldisgildi barna- og unglingabókmennta
beita vönduðu máli í ræðu og riti
sýna þroskaða siðferðisvitund, víðsýni, sköpunarhæfni og samlíðan í verkum sínum
semja efni ætlað börnum og/eða unglingum
Í áfanganum er viðhaft leiðsagnarmat með símati alla önnina. Öll verkefni gilda til einkunnar og er mikilvægt að nemendur stundi námið reglulega. Verkefnaskil geta verið á skrifleg, munnleg og í formi myndbanda.