Námið er vettvangsnám þar sem farið er í ferðir út í náttúruna þar sem tekist er á við raunaðstæður. Áherslan er á nemandann sjálfan, þekkingu hans, leikni og hæfni varðandi útivist jafnt á láglendi og á fjöllum. Kenndir eru fjölmargir undirstöðuþættir tengdir gönguferðum á fjöllum hvort heldur sem er að sumri eða vetri. Megináherslan er á að dýpka skilning nemenda á gönguferðum á fjöllum og gera þá færa í að ferðast á eigin vegum um fjalllendi og óbyggðir af öryggi og kunnáttu. Farið er yfir undirbúning og skipulag ferða og fjallað um næringu og útieldun, klæðnað, ferðaáætlanir, helsta búnað við gönguferðir og almenn öryggisatriði. Nemandi lærir lestur af korti og meðferð áttavita og GPS tækja. Nemandinn kynnist því að vera hluti af hópi, hópastarfi, hópastjórnun og viðurkenndum leiðum til að ná bættum árangri í vinnu með hópi fólks. Lögð er áhersla á að kynna þá fjölbreyttu möguleika til útivistar og náttúruskoðunar sem eru nærtækir.
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
grunnþáttum varðandi skipulag ferða
kortalestri, áttavita og GPS
búnaði til fjallamennsku og tjaldferða
aðhlynningu í lengri ferðum
þverun straumvatna
útieldun
nauðsynlegum öryggisbúnaði
eigin styrkleikum og takmörkunum
mikilvægi hópstjórnunar
tækifærum og möguleikum til útivistar og ferðalaga í nærumhverfi sínu
notkun sérhæfðs búnaðar til útivistar
túlkun veðurspár og hagnýtri veðurfræði og náttúrufræði
mikilvægi þess að ganga vel um landið
mismunandi aðstæðum í óbyggðum og fjalllendi og viðbrögðum við þeim
verndun náttúrunnar
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
greina helstu þætti við skipulag og undirbúning ferða
rata af öryggi með hjálp áttavita og GPS
huga vel að sjálfum sér og öðrum í lengri tjaldferðum
velja staði til að þvera straumvatn
meta aðstæður úti í íslenskri náttúru
nýta sér aðstæður í náttúrunni og meta veðurútlit
meta eigin styrkleika og takmarkanir
velja milli mismunandi leiða sem henta hverju sinni til útivistar
velja sérhæfðan útivistarbúnað í samræmi við aðstæður
geta rýnt til gagns í lok ferðar
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
útbúa raunhæfa ferðaáætlun fyrir styttri ferðir
rata af öryggi með hjálp áttavita og GPS
geta tekið ákvarðanir miðað við eigin færni, staðhætti og aðstæður
geta sinnt matarundirbúningi við frumstæðar aðstæður
velja og nota viðeigandi búnað á hverjum stað
velja verkefni við hæfi
meta aðstæður á raunhæfan hátt
leggja mat á hættur og stýra mögulegum áhættuþáttum
velja sér viðeigandi veðurspá til ferðalaga
stunda fjölbreytta útivist á öruggan hátt
hagnýta sér það sem sjá má af veðurútliti
bera virðingu fyrir náttúru og umhverfi
Símat með áherslu á leiðsagnarmat sem byggir á vinnu nemenda. Ferilbók í tengslum við verk- og vinnustaðanám þar sem við á.