Í áfanganum er lögð áhersla á vísindalega nálgun á tungumálið. Fjallað verður um eðli mannlegs máls og nemendur fræðast um kenningar um alheimstungumál, máltöku barna og máltökuskeið og ýmis tal- og málmein. Þá verður fjallað um framtíð íslenskunnar og sérstaklega hugað að stafrænni stöðu hennar og annarra lítilla tungumála í tæknivæddum heimi. Í tengslum við þá umræðu verður umfjöllun um máltækni og tengsl hennar við hugbúnað og gagnasöfn, innlend og erlend. Leitast verður við að efla skilning nemenda á eðli mannlegs máls og kynna þeim helstu grundvallarhugtök og aðferðir málvísinda.
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
sérstöðu mannsins þegar kemur að tungumáli
máltöku barna
mismunandi kenningum um málþroska
tal- og málmeinum
félagslegum þáttum sem geta haft áhrif á málfar fólks og hvernig tungumálið mótar sjálfsmynd einstaklinga
áhrifum samfélagsmiðla og annarrar nútímatækni á þróun tungumálsins
hugbúnaði og gagnasöfnum í máltækni sem og máltækniáætlun fyrir íslensku
heimildanotkun í tengslum við verkefnavinnu og gildi mismunandi heimilda
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
nýta sér fræðileg hugtök í umfjöllun um tungumál
beina sjónum að málþroska barna og ýmsum tal- og málmeinum
átta sig á mismunandi málsniði og tali ólíkra hópa og greina ýmis félagsleg einkenni tungumáls
vinna með tungumálið í tengslum við nútímatækni og samfélagsmiðla
vinna með rannsóknartengt efni úr félagslegum málvísindum
draga saman og nýta á viðurkenndan og gagnrýninn hátt upplýsingar úr hvers kyns heimildum og meta áreiðanleika þeirra
vinna á fræðilegan hátt úr gögnum sem tengjast efni áfangans og koma efninu á framfæri á skýran og greinargóðan hátt á blæbrigðaríku máli, hvort sem um er að ræða talað eða ritað mál
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
skoða félagslegar hliðar málsins eftir ýmsum leiðum og átta sig á áhrifum félagslegra þátta á tungumál og samskipti
leggja mat á og efla eigin málfærni og annarra, til dæmis með því að nýta málfræðiupplýsingar og þekkingu sína á íslenska málkerfinu
vinna með máltækni og hagnýt gagnasöfn á íslensku
sýna víðsýni í umfjöllun um mál og málsnið mismunandi hópa
skrifa skýran, vel uppbyggðan og grípandi texta og beita málinu á viðeigandi hátt við ólíkar aðstæður í ræðu og riti
taka þátt í málefnalegum umræðum, tjá afstöðu sína og efasemdir um efnið og komast að rökstuddri niðurstöðu
Námsmat byggir á leiðsagnarmati þar sem vinna nemandans er metin jafnóðum allan námstímann. Til grundvallar eru fjölbreytt verkefni en hluti námsmatsins felst í sjálfstæðri rannsóknarvinnu og þess er krafist að nemendur útvegi sér sjálfir lesefni þar sem áhersla er lögð á traustar og öruggar heimildir.