Námið er vettvangsnám þar sem farið er í ferðir úti í náttúrunni að vetrarlagi þar sem tekist er á við raunaðstæður. Nemandi er þjálfaður í að skipuleggja nokkurra daga tjaldferð að vetrarlagi af öryggi og velja viðeigandi búnað fyrir mismunandi ferðir og aðstæður. Farið verður yfir grunnhugtök snjóflóðafræða og notkun hinnar heilögu snjóflóðaþrenningar verður höfð að leiðarljósi. Miðað er við að nemandi verði sjálfstæður í óbyggðum og geti metið aðstæður með tilliti til öryggis t.d. út frá umhverfi, hópnum og breyttum veðurskilyrðum. Nemandi kynnist veðurfræði, veðurspám og að lesa í veðrabrigði. Einnig er áhersla á að nemandinn þjálfast í að aðstoða við leiðsögn með reyndum leiðsögumönnum í snæviþöktu umhverfi og á jökulhettum. Ýmis hugtök sjálfbærni og náttúrufræði eru tekin fyrir og þau útskýrð. Einnig er farið í þá þætti sem snerta umgengni við landið, viðkvæma náttúru og jarðmyndanir.
JÖKL2GR03, SNJÓ2GR03
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
skipulagi og búnaði fjalla- og tjaldferða að vetrarlagi
kortalestri, áttavita, GPS, rötun og leiðarvali í fjalllendi
aðhlynningu í lengri ferðum
jökulhettum og ferðalögum á þeim
nauðsynlegum öryggisbúnaði í snæviþöktu umhverfi og jökulhettum
eigin styrkleikum og takmörkunum
mikilvægi þess að ganga vel um landið
mismunandi aðstæðum í óbyggðum og fjalllendi og viðbrögðum við þeim
mikilvægi hópstjórnunar
tækifærum til fjallamennsku og hollrar útivistar í nærumhverfi sínu
hagnýtri veðurfræði og náttúrufræði
grunnhugtökum snjóflóðafræða
snjóflóðabúnaði
mikilvægi sprungubjörgunar á jökulhettum
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
greina helstu þætti við skipulag og undirbúning vetrarferða
rata með hjálp áttavita og GPS
nýta sér aðstæður í íslenskri náttúru og meta veðurútlit að vetri til
meta eigin styrkleika og takmarkanir
huga vel að sjálfum sér og öðrum í lengri vetrarferðum
finna heppilegt samstarfsfólk og tengiliði við skipulag og undirbúning ferða
skipuleggja vetrarferðir og nota viðeigandi búnað sem þarf í slíkar ferðir
rata og velja milli mismunandi leiða í fjalllendi að vetri til, meta áhættu og stýra þeirri hættu
nota hina heilögu snjóflóðaþrenningu
meta snjóflóðaaðstæður byggðar á upplýsingasöfnun
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
rata af öryggi með hjálp áttavita og GPS í vetrarferðum
geta tekið ákvarðanir miðað við eigið líkamsástand, staðhætti og aðstæður
velja og nota viðeigandi búnað hverju sinni
geta valið og farið í vetrarferðir við hæfi og nýtt þann búnað sem þarf
stunda vetrarferðir við mismunandi aðstæður
útbúa raunhæfa ferðaáætlun fyrir vetrarferðir
velja heppilegt samstarfsfólk eða tengilið í nærumhverfi sínu
taka ákvarðanir í samráði við hóp ferðafélaga
hagnýta sér það sem sjá má af veðurútliti
ferðast af öryggi á jökulhettum og í snæviþöktu umhverfi að vetri til
meta snjóflóðaaðstæður, taka viðeigandi ákvarðanir og nota snjóflóðabúnað ef þarf
miðla fróðleik um náttúru landsins sem fyrir augu ber á ferðalagi
leggja mat á hættur og stýra mögulegum áhættuþáttum
Símat með áherslu á leiðsagnarmat sem byggir á vinnu nemenda. Ferilbók í tengslum við verk- og vinnustaðanám þar sem við á.