Farið er yfir vinnuverndarmál, svo sem reglur um heilbrigði, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, ýmsar hættur í störfum og örugg vinnubrögð. Skoðuð áhöld og verkfæri sem notuð eru á ökutækjaverkstæðum. Skoðuð sérverkfæri og áhöld til sérgreindra verka. Farið yfir notkunarsvið og vinnuverndaratriði sem tengjast ýmsum verkstæðisbúnaði, einkum málmsuðutækjum, lyftitækjum, þrýstilofts- og rafknúnum tækjum og aflverkfærum. Farið yfir meðhöndlum skrúffestinga, þ.m.t. að gera við skrúfgang og bora úr slitna bolta. Fjallað um hættuleg efni og eitrunarhættu og bruna- og sprengihættu. Mikilvægi þess að íhuga hættur og þekkja viðbrögð við óhöppum. Hreinlæti og meðferð úrgangs og spilliefna. Áhersla á fagmennsku við alla þætti sem snerta starfið. Áfanginn er sameiginlegur bifreiðasmíði, bifvélavirkjun og bílamálun og eru áherslur í kennslu í samræmi við það.
Grunnur bíliðna
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
Þeim almennu og sérstöku hættum sem fylgja störfum á ökutækjaverkstæðum og valdið geta slysum, sjúkdómum og skemmdum á verðmætum.
Persónulegum öryggisbúnaði og reglum um notkun hans.
Öryggis- og hlífðarbúnaði sem er á tækjum eða verkfærum.
Helstu almennu verkfærum og sérverkfærum sem notuð eru á ökutækjaverkstæðum, notkun þeirra og umhirðu.
Algengum skrúffestingum og lyklastærðum.
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
Meta hættur á vinnustað.
Velja réttan hlífðarbúnað.
Velja réttu verkfærin.
Nota stærri sem smærri verkfæri við vinnu á ökutækjaverkstæðum.
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
Gera grein fyrir þýðingu hugtaksins fagmennska.
Lýsa reglum um hreinlæti og meðferð úrgangs og spilliefna.
Nota persónulegan öryggisbúnað.
Haga vinnu sinni þannig að hún valdi ekki hættu fyrir hann sjálfan eða aðra sem á verkstæðinu eru.
Meta ástand almennra áhalda og verkfæra sem notuð eru á ökutækjaverkstæðum.
Lýsa meðferð, hirðu og beitingu almennra áhalda og verkfæra sem notuð eru á verkstæðum.
Lýsa notkun og meðferð verkstæðisbúnaðar: málmsuðutækja, lyftitækja, þrýstilofts- og rafknúinna tækja, aflverkfæra og ýmissa léttitækja.
Gera við skrúfganga og bora úr slitna bolta.
Símat. Verkefni sem tengjast hæfniviðmiðum áfangans verða lögð fyrir og metin.