Í áfanganum er fjallað um umhverfismál og sjálfbærni. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru lögð til grundvallar ásamt umhverfisverkefninu Skólar á grænni grein á vegum Landverndar.
Nemendur nýta sér þætti umhverfisstjórnunarkerfis sem verkefnið Skólar á grænni grein byggir á. Nemendur ganga þar í gegnum sjö skref umhverfisstjórnunar, sem er alþjóðlega viðurkennd aðferð og notuð um allan heim.
Nemendur velja sér jafnframt þema til að vinna með af þeim þemum sem í boði eru innan verkefnisins. Í áfanganum er hugtakið geta til aðgerða haft að leiðarljósi. Í getu til aðgerða er lýðræðislegum vinnubrögðum beitt í námi svo nemendur geti haft áhrif á hvernig, hvenær, hvar og hvað þeir læra. Einnig felst í því að virkja nemendur til aðgerða innan skólans eða síns nærsamfélags.
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
umhverfisstjórnun
stöðu umhverfismála
mikilvægi samvinnu í umhverfismálum
sjö skrefum umhverfisstjórnunar (Skólar á grænni grein)
alþjóðlegri samvinnu varðandi umhverfismál
tengslum milli umhverfis, hegðunar neytenda og mannréttinda
fjölbreyttum leiðum einstaklings til vistvænna lifnaðarhátta
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
vinna með sjö skref umhverfisstjórnunar
lesa efni um umhverfismál á gagnrýninn hátt
vinna saman í umhverfismálum
velja vistvæna kosti umfram síður vistvæna, meðal annars með því að nýta umhverfismerkingar á vörum
flokka, endurnýta og endurvinna til að minnka umhverfisáhrif
útskýra og beita hugtakinu sjálfbærni
ræða og rökstyðja hvernig mannréttindi, hagkerfi og umhverfisvernd tengjast sjálfbærni
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
beita sjö skrefum umhverfisstjórnunar
hafa áhrif á nærsamfélag
skilja umræðu og hugtök tengd umhverfismálum
geta tekið virkan þátt í umræðu um ákvarðanatöku um nýtingu náttúruauðlinda
taka ábyrga og gagnrýna afstöðu til umhverfismála og rökstyðja þá afstöðu
sýna ábyrgð í eigin umgengni við náttúruna
öðlast heildstæða mynd af vanda sem ógnar framtíð jarðar og mikilvægi alþjóðahyggju í þessum málaflokki
vera meðvitaður og gagnrýninn neytandi
átta sig á áhrifum hvers einstaklings sem neytanda á umhverfi og samfélög
taka þátt í nýsköpun sem leiðir til sjálfbærni
minnka umhverfisáhrif sín með því að velja umherfisvænar vörur, draga úr sóun og endurnýta eða endurvinna það sem hægt er á skapandi hátt
ræða og túlka á gagnrýninn hátt upplýsingar sem tengjast umhverfismálum
vera virkur og ábyrgur þátttakandi í umræðu um umhverfismál
Í áfanganum er viðhaft símat alla önnina. Öll verkefni gilda til einkunnar og þess vegna er það mikilvægt að nemendur stundi námið reglulega.