Áfanginn er einn af fimm mögulegum listasöguáföngum sem kenndur er við Menntaskólann við Hamrahlíð. Allir áfangar í listasögunni eru sjálfstæðir þó svo að þeir tengist innbyrðis. Samanlagt ná þeir yfir sögu listarinnar í tímaröð, frá c.a. 30.000 árum f.Kr. til nútímans.
Viðfangsefni áfangans er um listaverk og arkitektúr á tímabili miðalda og endurreisnar, um sögurnar sem þau segja og fólkið sem þau sýna. Umfjöllunin spannar tímabilið frá ármiðöldum til endurreisnar eða c.a. tímabilið 500 – 1500, þar sem nemendur kynnast ár-kristinni list, rómanskri og gotneskri list og arkitektúr. Lögð verður áhersla á endurreisnarlist, þar skoðuð verða mörg af merkustu og frægustu listaverkum og arkitektúr tímabilsins í Evrópu; Ítalíu, Feneyjum, Niðurlöndum og víðar. Áfanginn beinir sjónum að mikilvægum borgum og samfélögum á áhrifaríkum tímabilum sögunnar, kannar og útskýrir sköpunarverk þeirra.
Skoðuð verða málverk, höggmyndir, arkitektúr og önnur hönnun í sögu mannsins í samhengi við samband milli listar og samfélags og þróun listarinnar rædd. Fjallað verður um listamenn á borð við Botticelli, Raphael, Michaelangelo, Leonardo da Vinci, Titian, Bellini, Fra Angelico, Donatello, Masaccio, Brunelleschi, Jan van Eyck ofl.
10 einingar í sögu eða listasögu
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
tilgangi listarinnar í mannlegu samfélagi
þróun listarinnar í gegnum söguna
skilning á táknfræði í kristinni list, tilgangi hennar og túlkun
skilning á táknfræði í goðafræði, tilgangi hennar og túlkun
mikilvægi listarinnar sem leið til að skilja fortíð mannsins og tengsl hennar við nútímann, því listsköpun er ein af elstu og þýðingarmestu athöfnum mannkynsins
hlutverki listagagnrýni
mikilvægi þekkingar á sagnfræði, kristinni guðfræði, goðafræði og táknfræði sem undirstöðu í myndlestri
hinum heillandi heimi listarinnar, tímaskeiðum og stíl í heimi listanna, með því að læra að“lesa“ listaverkin.
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
myndlæsi sem felst í því að geta lesið myndmál eins og ritaðan texta
myndgreiningu og færni í að skilja viðfangsefni listaverka, listfræðilega tækni, tímasetja þau og geta þekkt listfræðileg einkenni listamanna
listfræðilegri orðanotkun og þjálfun í að setja hugsanir sínar og upplifun í orð, bæði í tal- og ritmáli.
að samþætta upplýsingar frá ólíkum aðilum og hafa skilning á þeim upplýsingum
að þjálfa augu og heila til að öðlast færni í nákvæmri greiningu, samsetningu og mati á listaverkum
gagnrýnni hugsun og að byggja upp traust rök í umræðum
að tjá hugmyndir og upplifun á skiljanlegan og áhrifaríkan hátt
að flytja framsögu og setja fram á skýran hátt viðfangsefni og listfræðilega þætti
að taka þátt í umræðum og geta stutt mál sitt með rökum
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
skilja hversu einstæða sýn listin gefur okkur á sögu mannsins í gegnum aldirnar
skilja og meta breytingar og þróun í sögu listarinnar
hafa getu til að skilja og lesa listaverk í gegnum söguna sem og í nútímanum - í dýpt
að skilja hvernig maðurinn hefur notað listina til að tjá hugsanir sínar um lífið og tilveru, trúarlega þætti og eigið samfélag
að öðlast fjölbreytta þekkingu til að þroska dómgreindina
skilja og kunna að meta þýðingu listasögunnar sem mikilvægan þátt í góðri og fjölbreyttri menntun
Tímaverkefni, netverkefni, netpróf, frjálst hópverkefni, umræður, heimildaþættir og lokapróf