Í áfanganum er farið yfir hvernig lagnir fyrir heitt og kalt neysluvatn eru lagðar að töppunarstöðum í byggingum. Fjallað er um lagnaefni sem til greina kemur, allar gerðir tenginga og tengiaðferðir. Skoðaðar eru mögulegar lagnaleiðir með sérstakri áherslu á að sem minnst leiðni verði milli heitrar og kaldrar leiðslu. Sérstök áhersla er lögð á einangrun röra, ekki síst kaldra röra með tilliti til daggarmyndunar. Reiknaðar eru röravíddir út frá fjölda töppunarstaða og áætlaðrar notkunar á vatni.
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
lagnaefnum og búnaði sem notaður er í neysluvatnslagnir innanhúss, s.s. tengjum, ventlum, stýritækjum, festingum o.fl.
áhöldum og tækjum sem notuð eru við lagningu neysluvatnslagna.
áhöldum og rafmagnsverkfærum til að leggja og festa upp lagnir.
búnaði til að yfirfara og þrýstiprófa neysluvatnskerfi.
öryggisreglum og hlífðarbúnað fyrir viðkomandi áhöld og tæki.
kröfum um brunavarnir við lagnir milli brunahólfa.
kröfum um hreinlæti og HACCP kerfi.
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
velja lagnaefni með hliðsjón af aðstæðum.
velja rétt áhöld og tæki til að tengja saman lagnaefni og búnað.
velja lagnaleiðir og einangrun fyrir neysluvatnslagnir innanhúss.
meta nauðsyn hljóðdempunar frá lögnum og hvernig festa skuli neysluvatnslagnir.
vinna með snittvélar, þrýstitangir, suðutæki og lóðtæki til tengingar lagna úr málmum.
vinna með þrýstitangir og suðuvélar til að tengja lagnir úr plasti.
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
leggja neysluvatnslagnir fyrir heitt og kalt vatn innanhúss.
nota íslenska gagnabankann um vatn.
leggja neysluvatnskerfi í byggingar í samræmi við íslenska staðla.
ganga á öruggan hátt frá lögnum í votrýmum í samvinnu við aðra iðnaðarmenn.
þrýstiprófa neysluvatnskerfi á mismunandi hátt eftir lagnaefnum.
skrá og merkja ventla og stýritæki neysluvatnskerfa og setja upp skýringartöflur.
áætla neysluvatnsnotkun og reikna rörasverleika.
vinna í samræmi við viðurkenndar öryggisreglur og öryggisbúnað.
Símat. Verkefni sem tengjast hæfniviðmiðum áfangans verða lögð fyrir og metin.