Áfanginn fjallar um sögu fornaldar með áherslu á Forn-Grikki og Rómaveldi. Nemendur kynnast helstu atburðum, hugmyndum, stjórnarháttum, daglegu lífi og menningu þessara samfélaga og hvernig þau lögðu grunninn að mörgum þáttum vestrænnar menningar, svo sem í stjórnmálum, heimspeki, listum og lögfræði. Jafnframt er fjallað um goðafræði, heimspeki og trúarbrögð og hvernig þau mótuðu samfélögin.
Sérstök áhersla er lögð á að þjálfa nemendur í sagnfræðilegum vinnubrögðum, svo sem að nýta og meta heimildir, bera saman ólík sjónarhorn og ræða fræðilegar spurningar. Markmiðið er að efla gagnrýna hugsun nemenda, auka skilning þeirra á sögu fornaldar og mikilvægi hennar fyrir nútímann.
10 einingar í sögu á 2. þrepi
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
helstu tímabilum, atburðum og persónum fornaldar, einkum í Grikklandi og Rómaveldi
stjórnarháttum, hugmyndum og heimspeki þessara samfélaga
trúarbrögðum, goðafræði og menningu fornaldar og áhrifum þeirra til framtíðar
helstu heimildum um fornöld og hvernig þær móta skilning okkar á sögunni sem og áhrif fornaldar á mótun vestrænnar menningar
fræðilegum hugmyndum og umræðum tengdum túlkun fornaldarsögunnar
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
lesa, nýta og bera saman ólíkar sagnfræðilegar heimildir
greina sögulegar frásagnir með gagnrýnum hætti
setja fram rökstuddar skoðanir í máli og riti
nýta fjölbreyttar aðferðir við framsetningu, svo sem ritgerðir, kynningar og stafrænar lausnir
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
beita sagnfræðilegum vinnubrögðum við að afla, meta og vinna úr heimildum
tengja sögu fornaldar við víðara samhengi mannkynssögunnar með sérstakri áherslu á þá arfleifð sem varð hluti af vestrænni menningu
sýna skilning á margbreytileika samfélaga fornaldar og hvernig þau mótuðust af hugmyndum, trú og menningu
taka þátt í málefnalegum umræðum og rökræðum um sögu og samfélög fornaldar
nýta þekkingu og leikni úr áfanganum til frekara náms í sögu og skyldum greinum
Í áfanganum er viðhaft símat alla önnina. Öll verkefni gilda til einkunnar og þess vegna er það mikilvægt að nemendur stundi námið reglulega og skili öllum verkefnum.